Bætur fyrir að sjá drottninguna

Mynd af Elízabetu Bretadrottingu fór fyrir brjóstið á opinberum starfsmanni …
Mynd af Elízabetu Bretadrottingu fór fyrir brjóstið á opinberum starfsmanni á Norður-Írlandi. AFP

Tíu þúsund pund, sem samsvarar tæplega 1,6 milljón króna, voru greidd til opinbers starfsmanns á Norður-Írlandi í bætur vegna þess að hann sagði það misbjóða sér að þurfa að ganga framhjá myndum af Elísabetu Bretadrottningu og Filippusi prins, eiginmanni hennar, sem hengdar voru upp á vegg þar sem hann starfar.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að kvörtun starfsmannsins hafi leitt til þess að myndunum af konungshjónunum hafi meðal annars verið skipt út fyrir mynd af drottningunni að taka í höndina á Martin McGuinness, fyrrverandi ráðherra í heimastjórn Norður-Írlands og fyrrverandi leiðtoga Írska lýðveldishersins.

Starfsmaðurinn, Lee Hegarty, hélt því fram að það væri brot á mannréttindum hans að þurfa að starfa á vinnustað með myndum sem væru móðgandi að hans mati. Maginnis lávarður, fyrrverandi þingmaður Sambandsflokks Ulster, greindi frá málinu en hann segir að haft hafi verið samráð við Hegarty um það hvað kæmi í stað myndanna. Fram kemur í fréttinni að hann hafi lagt til myndir af drottningunni þar sem hún hitti fólk á Norður-Írlandi.

Fórnarlömb misnotkunar hunsuð

Maginnis segist ekkert hafa við nýju myndirnar að athuga. Hins vegar geri hann alvarlega athugasemdir við að greidd hafi verið 10 þúsund pund til Hegartys á bak við tjöldin að því er virtist vegna þess að tilfinningum hans hafi verið misboðið.

Greiðslan var samþykkt af þáverandi ráðherra málefna Norður-Írlands í bresku ríkisstjórninni, Theresu Villiers. Maginnis segist hafa heimildir fyrir því að það hafi verið gert samkvæmt ráðleggingu ráðuneytisstjóra hennar.

Maginnis segir að nokkru eftir að bótagreiðslan hafi átt sér stað hafi Hegarty verið færður upp í starfi. Á sama tíma hefði tekið mörg ár fyrir fórnarlömb misnotkunar innan opinberra stofnana í fyrndinni að reyna að fá greiddar bætur frá ríkinu.

Misst öll tengsl við raunveruleikann

Málið væri hneyksli. „Við höfum misst öll tengsl við raunveruleikann þegar mynd af hennar hátign móðgar opinberan starfsmann en á sama tíma deplum við ekki auga þegar fólki, sem misnotað hefur verið á versta mögulegan máta, er neitað um réttlæti.“

Hvetur Maginnis ráðamenn á Norður-Írlandi til þess að setja ekki aðeins myndina af konungshjónunum aftur upp heldur draga til baka bótagreiðsluna til Hegartys og nota fjármunina frekar í þágu þeirra sem sætt hafa misnotkun.

Haft er eftir Sammy Wilson, þingmanni Lýðræðislega sambandsflokksina, að málið sé til marks um þá sturlun sem ríki í stjórnkerfinu á Norður-Írlandi. Opinberir starfsmenn störfuðu fyrir breska konungsríkið og drottningin væri höfuð þess.

Móðgaðist ekki fyrr en eftir 20 ár

Meira að segja fulltrúar stjórnmálaflokksins Sinn Fein, sem vilja að Norður-Írland sameinist Írlandi, hittu drottninguna. Hins vegar hefði skapast ákveðinn menning á meðal opinberra starfsmanna á Norður-Írlandi sem gengi út á það að halda því fram að eitthvað móðgaði þá vitandi að það yrði til þess að þeim væru greiddar bætur.

Wilson bendir ennfremur á að Hegarty hefði starfað hjá hinu opinbera í 20 ár áður og gengið framhjá mynd af drottningunni án þess að móðgast vegna þess. Þá hafi hann ekki átt í erfiðleikum með að fá greitt í peningum sem bæru mynd drottningarinnar.

Talsmaður stjórnvalda á Norður-Írlandi neitaði að tjá sig um málið þegar blaðið leitaði eftir því á þeim forsendum að um persónuleg málefni væri að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert