Bíti ekki á agnið hjá Trump

Ilhan Omar, Alexandria Ocasio-Cortes, Rashida Tlaib og Ayanna Perssley, þingkonur …
Ilhan Omar, Alexandria Ocasio-Cortes, Rashida Tlaib og Ayanna Perssley, þingkonur Demókrataflokksins, á blaðamannafundi í morgun. AFP

Fjórar þingkonur Demókrataflokksins í Bandaríkjunum segja Donald Trump, Bandaríkjaforseta, reyna að beina athygli frá stefnu sinni með rasískum árásum í garð þeirra, en forsetinn lét þau orð falla í gær að þær ættu að snúa aftur til upprunalanda sinna séu þær óánægðar í Bandaríkjunum. 

Þingkonurnar fjórar eru Alexandria Ocasio-Cortes frá New York, Rashida Tlaib frá Michigan, Ilhan Omar frá Minnesota og Ayanna Perssley frá Massachusetts, en þær boðuðu til blaðamannafundar vegna málsins í morgun. Allar eru þær fæddar í Bandaríkjunum nema Omar sem þangað kom sem flóttamaður frá Sómalíu sem barn.

Hugsi fremur um heilbrigðiskerfið og innflytjendur

Á fundinum hvatti „flokkurinn“ (e. the squad), eins og konurnar hafa verið nefndar fólk til þess að bíta ekki á agn forsetans. „Þetta er einfaldlega afvegaleiðing frá þeirri óreiðukenndu, tilfinningalausu og spilltu menningu sem ríkir í stjórnartíð forsetans,“ sagði Pressley, en þingkonurnar sögðu að athyglin þyrfti að vera á heilbrigðis- og útlendingamálum, einkum meðferð hælisleitenda við suðurlandamæri Bandaríkjanna.

Ocasio-Cortez sagði Trump ekki vita hvernig hann ætti að verja stefnu sína og því réðist hann að þeim persónulega. „Um það snýst þetta,“ sagði hún. 

Þingkonurnar fjórar segja forseta Bandaríkjanna ráðast gegn þeim persónulega til …
Þingkonurnar fjórar segja forseta Bandaríkjanna ráðast gegn þeim persónulega til þess að beina sjónum að öðru en stefnu hans. AFP

Talip sagði ummæli forsetans væru til vitnis um þá kynþáttahyggju og útlendingahatur sem í stefnu hans birtist. „Við getum ekki leyft þessum andstyggilegu ummælum forsetans að trufla okkur í þeirri vegferð að gera stjórn hans ábyrga fyrir ómannúðlegum aðstæðum við landamærin þar sem börn eru skilin frá ástvinum sínum og sett í búr við ólöglegar og hræðilegar aðstæður,“ sagði hún. mbl.is