Þýskur Tom Hanks á Gardermoen

Lögreglumenn við eftirlit á Gardermoen-flugvellinum þar sem peningalaus þýskur ferðamaður …
Lögreglumenn við eftirlit á Gardermoen-flugvellinum þar sem peningalaus þýskur ferðamaður hefur haldið sig dögum saman með ekkert annað í fórum sínum en flugmiða til Þýskalands 1. ágúst. AFP

„Við getum ekki heimilað að fólk sé hérna vikum saman, þetta er bara lögreglumál,“ segir Gurli Ulverud, upplýsingafulltrúi norsku flugvallarekstrarþjónustunnar Avinor, í samtali við norska dagblaðið VG.

Umræðuefnið er staurblankur þýskur ferðamaður á sextugsaldri sem ekki hefur annað í fórum sínum en flugmiða til heimalandsins. Dagsetning þeirrar farar er 1. ágúst og hefur manninum verið margvísað af Gardermoen-flugvellinum, tæpa 50 kílómetra norður af Ósló. Hann birtist þó ætíð á nýjan leik.

Segir Ulverud fullan skilning á því að fólk sofi á flugvellinum eina nótt krefjist aðstæður þess, hins vegar sé engin hemja að ferðamenn taki sér þar bólfestu um margra vikna skeið.

Hefur ekki brotið nein lög

Stian Hagen, yfirlögregluþjónn í flugvallarlögreglunni, segir í samtali við Romerikes Blad, sem fyrst greindi frá málinu, en rekur læsta áskriftarþjónustu, að málið sé tyrfið. „Hann hefur svo sem ekki gerst brotlegur við nein lög, en hann er gjörsamlega úrræðalaus,“ segir Hagen og bætir því við að málið minni einna mest á kvikmynd Steven Spielberg, The Terminal, frá 2004 þar sem Tom Hanks lék mann frá uppskálduðu ríki í Austur-Evrópu, Krakósíu, sem komst hvorki lönd né strönd frá John F. Kennedy-flugvellinum í New York vegna borgarastyrjaldar í heimalandinu.

Myndin var þó ekki með öllu skáldskapur, heldur byggð á 18 ára dvöl íranska flóttamannsins Mehran Karimi Nassiri á Charles de Gaulle-flugvellinum í Frakklandi.

Vísað af flugvellinum í 72 stundir

Tom Sandberg, aðgerðastjóri austurumdæmis norsku lögreglunnar, segir lögregluna hafa gert þá úrslitatilraun að hafa samband við þýsk yfirvöld til að aðstoða manninn til síns heima, en ekki haft erindi sem erfiði. „Við höfum núna vísað honum út af flugvellinum, hann verður bara að bjarga sér sjálfur,“ segir Sandberg við VG.

Dagbladet ræðir við Ronny Årstein, annan aðgerðastjóra austurumdæmisins, sem segir manninn við góða heilsu og með fullu viti. „Hann á bara ekki í nein hús að venda [...] Við getum ekki handtekið hann, hann hefur ekkert gert af sér,“ segir Årstein.

Í gær var þessum þýska Tom Hanks þó gert að yfirgefa flugvöllinn í að lágmarki 72 klukkustundir og enginn þeirra sem fjölmiðlar ræddu við í gærkvöldi veit hvar maðurinn er niður kominn.

mbl.is