Enginn „of gamall“ til að fremja morð

Saksóknari í málinu fór fram á átta ára fangelsi vegna …
Saksóknari í málinu fór fram á átta ára fangelsi vegna málanna tveggja og sagði að þrátt fyrir háan aldur hans væri Flick ekki við það að hætta ofbeldisfullri hegðun sinni. Ljósmynd/Ami Shinozawa

Dæmdur morðingi og þekktur ofbeldismaður á áttræðisaldri, sem sleppt hafði verið úr fangelsi vegna hás aldurs hans, hefur verið fundinn sekur um annað morð.

Albert Flick er 77 ára gamall og var á dögunum dæmdur fyrir morðið á 48 ára gamalli móður, en verknaðurinn var keimlíkur morðinu á þáverandi eiginkonu Flick 40 árum áður. 

Flick hafði verið látinn laus úr fangelsi vegna hás aldurs hans sem talinn var koma í veg fyrir frekara ofbeldi af hans hálfu. Það varð hins vegar ekki raunin, enda það tók kviðdómara í Maine í Bandaríkjunum aðeins klukkustund að ákveða sekt hans í morðinu á Kimberly Dobbie, þar sem honum var gefið að sök að hafa stungið hana til bana, að ellefu ára gömlum tvíburum hennar viðstöddum, fyrir utan þvottahús í bænum Lewiston árið 2018.

Hefði aldrei átt að ganga laus

Morðið á Dobbie þykir afar hrottafengið og hefur ekki síst vakið spurningar og ótta íbúa í Lewistone í Maine og víðar um lögmæti frelsunar Flick úr fangelsi.

„Það er enginn ‚of gamall‘ til að fremja morð. Hann hefði aldrei átt að ganga laus,“ segir Elsie Kimball Clement, dóttir fyrrverandi eiginkonu Alberts, sem varð vitni að ofbeldisfullri hegðun Flick og árásinni sem endaði með því að hann stakk móður hennar í fjórgang í háls og bringu og loks í hjartað eftir að hún hafði sótt um skilnað.

Flick var dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir morðið á eiginkonu sinni, en ofbeldinu var engan veginn lokið. Hann var síðar dæmdur fyrir að kýla og stinga þáverandi kærustu sína með gaffli árið 2007 og fyrir að hóta konu sem hann átti í sambandi við árið 2010.

Fékk Dobbie á heilann

Saksóknari í síðara málinu fór fram á átta ára fangelsi og sagði að þrátt fyrir háan aldur hans væri Flick ekki við það að hætta ofbeldisfullri hegðun sinni. Dómari taldi hins vegar að tæplega fjögur ár myndu nægja, að Flick nálgaðist þann aldur að hann gæti ekki lengur haldið áfram fyrra atferli og að fangelsisvist umfram þann tíma myndi ekkert gagn gera.

Flick var því látinn laus innan fjögurra ára án nokkurs skilorðs. Skömmu síðar kynntist hann Dobbie, heimilislausri tveggja barna móður, og fékk hana á heilann. Hann elti hana ítrekað á bókasafnið þar sem hún eyddi mestum sínum tíma og bauðst m.a. til að kaupa hollan hádegismat handa sonum hennar. 

Dobbie og börnunum hafði nýlega verið úthlutað eigin heimili utan Lewiston þegar Flick stakk hana til bana daginn áður en þau áttu að flytja. Talið er að Flick hafi vitað að Dobbie væri að flytja burt úr bænum og hafi hugsað með sér að gæti hann ekki fengið hana gæti hann allt eins drepið hana.

Umfjöllun New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert