Einn í klefa og eftirliti ekki sinnt

Epstein fékk að vera einn í klefa í fangelsinu.
Epstein fékk að vera einn í klefa í fangelsinu. AFP

Fjárfestirinn og barnaníðingurinn Jeffrey Epstein, sem fannst látinn í fangaklefa sínum á Manhattan í gærmorgun, átti að vera undir eftirliti fangelsisvarða á hálftíma fresti. Því verklagi var ekki fylgt nóttina áður en hann fannst.

Þetta hefur dagblaðið New York Times eftir ónafngreindum heimildarmanni sínum innan raða löggæsluyfirvalda.

Dagblaðið greinir enn fremur frá því að fangelsið hafi fært þann sem deildi klefa með Epstein úr klefanum, og þar með leyft Epstein að vera einn um klefann aðeins tveimur vikum eftir að sjálfsvígsvakt yfir honum var hætt.

Ákvörðunin um þetta brýtur í bága við hefðbundið verklag fangelsisins, segja tveir embættismenn í samtali við New York Times.

Metropolitan-betrunarmiðstöðin, þar sem Epstein fannst látinn í klefa sínum að …
Metropolitan-betrunarmiðstöðin, þar sem Epstein fannst látinn í klefa sínum að morgni laugardags. AFP

Virtist hafa reynt sjálfsvíg 23. júlí

Þessar uppljóstranir hafa vakið enn fleiri spurningar um það sem virðist vera sjálfsvíg níðingsins og munu rannsóknir dómsmálaráðuneytisins annars vegar og alríkislögreglunnar hins vegar líklega beinast að þessu misræmi í verklagi.

Fangelsismálaskrifstofa ráðuneytisins hefur þegar verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekki sérstaka vakt á Epstein eftir að hann fannst í klefa sínum 23. júlí með áverka sem bentu til sjálfsvígstilraunar.

Heimildarmaður New York Times segir að þegar tekin hafi verið ákvörðun um að hætta sjálfsvígsvakt yfir Epstein hafi fangelsið upplýst dómsmálaráðuneytið um að hann myndi hafa klefafélaga og að vörður myndi líta inn í klefann á hálftíma fresti.

Það var hins vegar ekki gert, upplýsir heimildarmaðurinn.

Fangelsið er á Manhattan-eyju í New York-borg.
Fangelsið er á Manhattan-eyju í New York-borg. AFP

Trump kyndir undir samsæriskenningar

Samsæriskenningar ýmiss konar hafa sprottið upp á yfirborðið eftir andlát Epsteins og hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti ekki látið sitt eftir liggja.

Nokkr­um klukku­stund­um eft­ir að Ep­stein fannst lát­inn í klefa sín­um end­ur­tísti Trump Banda­ríkja­for­seti færslu frá grín­ist­an­um Ter­rence Williams, sem tengdi Cl­int­on-hjón­in við dauða Ep­stein. Þar kem­ur fram að Ep­stein „hafði upp­lýs­ing­ar um Bill Cl­int­on og núna er hann dá­inn,“ skrifaði Williams, sem er stuðnings­maður Trump.

Í tveggja mín­útna mynd­skeiði sagði Williams að „af ein­hverj­um skrítn­um ástæðum deyr fólk sem hef­ur upp­ýs­ing­ar um Cl­int­on-hjón­in“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert