„Hann er bara í losti“

Philip Manshaus var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í dag, …
Philip Manshaus var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í dag, grunaður um að myrða stjúpsystur sína og ráðast með vopnavaldi inn í mosku í Bærum í Noregi. Skólabróðir hans í Fosen-lýðháskólanum í Þrændalögum segist hafa haft þungar áhyggjur af öfgakenndum hugmyndum hans. Manshaus hafði skotvopnaleyfi og var með nokkur skotvopn löglega skráð á heimili sínu. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Hann er bara í losti. Hann nær engan veginn utan um það sem gerðist um helgina. Þetta er hörmulegt og átakanlegt mál,“ segir Vibeke Hein Bæra í samtali við mbl.is en hún er réttargæslulögmaður fjölskyldu Philips Manshaus sem í dag var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald, grunaður um að myrða stjúpsystur sína og ráðast grár fyrir járnum inn í al-Noor-moskuna í Bærum á laugardaginn.

Það er faðir Manshaus sem Bæra á við, maður sem um helgina missti 17 ára stjúpdóttur sína auk þess að sjá nú fram á að 21 árs gamall sonur hans hljóti allt að því sama árafjölda og hann hefur lifað, 21 ár, í refsidóm en það er refsiramminn fyrir hryðjuverk í Noregi sem ákæruvaldið mun að öllum líkindum hafa í ákæru sinni þegar þar að kemur.

„Framganga íslamsráðs [n. Islamisk Råd, hagsmunasamtaka múslima í Noregi] hefur verið honum mikil huggun og við erum ákaflega þakklát ráðinu, þaðan bárust innilegar samúðarkveðjur og ráðið hefur heldur betur lagt gjörva hönd á plóg við að byggja brú yfir til fjölskyldu grunaða,“ segir Bæra. „Hann hefur einnig fengið tækifæri til að tjá sóknarbörnum moskunnar gleði sína yfir að enginn þar skyldi láta lífið.“

„Þurfum að búa okkur til mynd af því sem gerðist“

Fjölskylduaðstæður eru þannig að faðir Manshaus er sambýlismaður móður hinnar látnu sem hét Johanne Zhangjia Ihle-Hansen og faðirinn ættleiddi frá Kína þegar hún var tveggja ára gömul. 

Vibeke Hein Bæra, réttargæslulögmaður fjölskyldu Manshaus, segir föður hans vera …
Vibeke Hein Bæra, réttargæslulögmaður fjölskyldu Manshaus, segir föður hans vera í losti eftir atburði helgarinnar. Ljósmynd/Aðsend

En hvert er þá hlutverk Bæra sem réttargæslulögmanns fjölskyldunnar. Verða bótakröfur hafðar uppi? „Nei nei, ég er fyrst og fremst tengiliður fjölskyldunnar við lögreglu og aðra aðila sem að málinu koma, þau tengjast þessu auðvitað mikið, annað þeirra er faðir grunaða og þau svo annars vegar blóðforeldri og hins vegar ættleiðingarforeldri hinnar látnu.“

Bæra segist efast um að hún sitji aðalmeðferð málsins. „Ég þarf auðvitað að fara í gegnum öll rannsóknargögn lögreglu, ég er einmitt að bíða eftir fyrsta skammtinum af þeim núna. Við þurfum að búa okkur til mynd af því sem gerðist á laugardaginn og skilja hvers vegna það gerðist, hvort tveggja aðstandendur [Manshaus] og þeir sem misgert var við. Upptakan sýnir mjög grófa atlögu,“ segir Bæra og á við upptöku sem Manshaus gerði af atlögu sinni með Go Pro-myndavél sem hann hafði fest á hjálm sinn og lögregla greindi fjölmiðlum frá í dag.

21 árs refsirammi fyrir hryðjuverk

„Ég get ekkert sagt þér um hvernig hann hefur það eða hvað við höfum rætt okkar á milli,“ segir Unni Fries, skipaður verjandi Philips Manshaus, og er tónn hennar öllu ósveigjanlegri en réttargæslulögmannsins í símtalinu á undan. 

Unni Fries, verjandi Philips Manshaus, segir allt of snemmt að …
Unni Fries, verjandi Philips Manshaus, segir allt of snemmt að spá nokkru um framhald málsins, mat á geðrænu sakhæfi grunaða muni fara fram og refsiramminn fyrir hryðjuverk í Noregi sé 21 ár, sami árafjöldi og grunaði hefur lagt að baki á æviskeiði sínu. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta fór nákvæmlega eins og búast mátti við,“ svarar hún þegar blaðamaður spyr um afstöðu hennar til gæsluvarðhaldsúrskurðarins í dag þegar Sven Olav Solberg héraðsdómari úrskurðaði Manshaus í fjögurra vikna gæsluvarðhald í dómsal 250 í Héraðsdómi Óslóar. Manshaus mótmælti úrskurðinum með þeim rökum að hann vildi ekki sitja í fangelsi sem hlutu takmarkað vægi eftir atburði helgarinnar.

„Ég mun núna næstu vikur fylgjast með rannsókn málsins og gæta réttar skjólstæðings míns. Erfitt er að spá nokkru um hvernig þetta fer, refsiramminn fyrir hryðjuverk í Noregi er töluverður, hann er 21 ár.“

Mat á geðrænu sakhæfi

Hvað með mat á geðrænu sakhæfi umbjóðanda þíns? „Ákæruvaldið hefur tilkynnt að slíkt mat verði framkvæmt,“ svarar verjandinn, „það er allt of snemmt núna að segja nokkuð um hvernig málin þróast upp úr því. Matið mun beinast að því hvort hann hafi skilið afleiðingar gjörða sinna þegar hann framkvæmdi þær, hvort hann hafi verið óútreiknanlegur [n. utilregnelig], þá er hægt að dæma hann til nauðungarvistunar á geðheilbrigðisstofnun, sem er ekki refsing í skilningi norskra laga, eða útreiknanlegur [n. tilregnelig] og þar með skilið afleiðingar gjörða sinna og þá er unnt að dæma hann til fangelsisrefsingar,“ útskýrir Fries. „En það er allt of snemmt að segja nokkuð um hvernig þessu vindur fram nú á frumstigi málsins,“ segir hún að lokum.

Frétt norska ríkisútvarpsins NRK um moskuárásina í sjónvarpsfréttatíma kvöldsins náði 14 mínútum og þarf að leita aftur til árásar Anders Breivik og alvarlegra náttúruhamfara í Noregi til að finna svo rausnarlegan tíma einnar og sömu fréttarinnar. 

Heltekinn af megrunarkúr

Auk ítarlegra frétta af gæsluvarðhaldsúrskurðinum í dag, þar sem Manshaus sat glottandi og sundurlaminn eftir fund sinn við hinn hálfsjötuga pakistanska Mohamed Rafiq í al-Noor-moskunni um helgina, greindu fjölmiðlar meðal annars frá því að samnemandi hans við Fosen-lýðháskólann í Þrændalögum, Benjamin Aas, hefði rætt við kennara við skólann og lýst áhyggjum sínum af hugarfari skólabróðurins sem verið hefði svo öfgakennt að „það þýddi ekkert að taka hann alvarlega“.

Manshaus sótti skólann í vetur sem leið á námslínunni „sjølberging“ þar sem nemendur læra að bjarga sér sjálfir í anda þess sem kallast „survival technology“ á engilsaxnesku. Lesa má lýsingu á náminu á heimasíðu skólans þar sem meðal annars segir: „Viltu geta gert við vélsögina þína eða vindstakkinn sjálf(ur)? Saumað tjald, ræktað grænmeti og búið til þín verkfæri? [...] Handverk er aðal þessarar námsleiðar. Þú lærir mismunandi tæknilega hluti, getur búið til þinn eigin hníf, saumað þér bakpoka, gert sjálf(ur) við eigur þínar og skapað nýtt af gömlu.“ Ekki fylgir sögunni hvers konar prófgráða hangir á spýtunni þegar nemandinn telst útlærður í fræðum þessum.

Aas segir öfgar hafa einkennt alla hegðun Manshaus. „Allt í einu fékk hann rosalegan áhuga á biblíunni, sem var viss vendipunktur,“ segir skólabróðirinn frá og bætir því við að í upphafi skólaársins hafi hann orðið heltekinn af ákveðnum megrunarkúr og aðeins neytt einnar máltíðar á dag. „Eitt sinn sátum við fjögur saman og ræddum um stjórn innflytjendamála. Þá sagðist hann ætla að heimsækja ákveðna stofnun,“ segir Aas, en stofnunin sú eigi sér rætur í uppgangstíma nasista í Þýskalandi.

Hugði á skotveiðipróf

Aas segist þá hafa leitað til kennara sem hann vissi að Manshaus liti upp til og beðið hann að ræða alvarlega við nemanda sinn. Arnhild Finne, rektor lýðháskólans, staðfestir að áhyggjur Aas hafi borist stjórnendum til eyrna. „Við ræddum við hann á þeim línum sem við meðhöndlum svona mál eftir,“ segir hún án þess að tjá sig um hvað út úr því hafi komið.

Aas segist þó hafa kunnað ágætlega við Manshaus. „Það var allt í lagi að ræða við hann og hann var tilbúinn að hlusta á sjónarmið annarra,“ segir hann auk þess að greina frá því að Manshaus hafi stefnt að því að taka skotveiðiprófið (n. jegerprøven) til þess að mega kaupa skotvopn. Dagblaðið VG greindi frá því nú fyrir skömmu að Manshaus hafi verið kominn með skotvopnaleyfi og á heimili hans hafi verið nokkur löglega skráð skotvopn.

„Hann sagði okkur að við yrðum að búa okkur undir kynþáttastríð,“ segir Aas að lokum við NRK.

VG

Dagbladet

TV2

Aftenposten

mbl.is