Krafðist þess að vera látinn laus

Philip Manshaus brosti að fjölmiðlamönnum er hann var leiddur fyrir …
Philip Manshaus brosti að fjölmiðlamönnum er hann var leiddur fyrir dómara í dag. Krafist er framlengingar gæsluvarðhalds um fjórar vikur. AFP

Öryggisþjónusta lögreglunnar, PST, í Noregi fékk ábendingu fyrir ári vegna Philip Manshaus sem ruddist vopnaður inn í mosku í bænum Bærum á laugardag. Hann er einnig grunaður um að hafa myrt stjúpsystur sína, en krafðist þess að vera látinn laus úr haldi yfirvalda í dag.

Dómari við Héraðsdóm Óslóar (n. Oslo tingrett) úrskurðaði síðdegis í dag að Manshaus skuli sæta fjögurra vikna gæsluvarðhaldi, þar af tvær vikur í einangrun. Fóru saksóknarar fram á að gæsluvarðhald yfir honum yrði framlengt um fjórar vikur og einangrun yrði viðhöfð allan þann tíma, að því er fram kemur í umfjöllun norska ríkisútvarpsins NRK.

Maðurinn er ákærður fyrir morð, morðtilraun og möguleg hryðjuverk. 

Andlit hins 21 árs gamla Manshaus var marið og þakið skrámum, eftir átökin við 65 ára mann sem yfirbugaði hann í moskunni, er hann var leiddur fyrir dómara í dag. Hann brosti til fjölmiðla þegar hann gekk inn í dómsal.

Unni Fries, verjandi mannsins, sagði dómara að skjólstæðingur hennar teldi sig saklausan og hann mun halda áfram að nýta rétt sinn til þess að tjá sig ekki. „Hann samþykkir ekki fangelsisvist og fer fram á að verða látinn laus,“ er haft eftir Fries.

Fengu ábendingu fyrir ári

PST fékk ábendingu vegna Manshaus í fyrra en í samráði við lögregluna var ákveðið að ekki væri nægileg ástæða til þess að fylgja málinu frekar eftir. Þetta hefur norska ríkissjónvarpið NRK eftir Hans Sverre Sjøvold, forstöðumanni PST.

Sjøvold segist ekki vita hvort lögreglan hafi rætt við Manshaus í kjölfar ábendingarinnar, en að gengið hafi verið úr skugga um að gert hafi verið fullnægjandi mat í málinu.

„Ábendingin var óskýr og var ekki þess eðlis að hún gæfi vísbendingu um yfirstandandi skipulagningu hryðjuverks,“ sagði Sjøvold á blaðamannafundi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert