Skotárás í mosku í Noregi

Vegfarandi tók þessa mynd utan við al-Noor-moskuna í Bærum nú …
Vegfarandi tók þessa mynd utan við al-Noor-moskuna í Bærum nú fyrir skömmu. Ljósmynd/Ábendinganetfang VG

Að minnsta kosti ein manneskja er sár eftir að skotum var hleypt af í al-Noor-moskunni í Bærum í Akershus, rétt utan við Ósló. Irfan Mushtaq, forstöðumaður moskunnar, greinir frá „hvítum manni í einkennisbúningi og með hjálm“ sem komið hafi vopnaður inn í moskuna og hafið skothríð.

Fjöldi sjúkrabíla er á staðnum auk lögregluliðs og hefur lögregla handtekið mann á staðnum. Ekki er vitað um ástand þess sem særður er.

Uppfært klukkan 15:48:

„Við vitum ekki hvort fleiri hafi átt þátt í árásinni,“ skrifar lögreglan í Ósló á Twitter nú fyrir skömmu. Enn fremur greinir hún frá því að árásarmaðurinn sé „ungur hvítur maður“ sem lögregla þekki enn engin deili á. 

Lögreglu barst fyrsta tilkynning um árásina klukkan 16:07, 14:07 að íslenskum tíma. Mushtaq segir í samtali við staðarmiðilinn Budstikka að árásarmaðurinn hafi komið inn í moskuna og skotið eitt sóknarbarna moskunnar en lögregla segist enn ekki geta staðfest hvort áverkar fórnarlambsins séu eftir byssuskot.

„Við erum að vinna á vettvangi núna og getum enn sem komið er ekki gefið frekari upplýsingar,“ segir Øyvind Myhre, talsmaður afbrotavaktar (n. krimvakta) lögreglunnar í Ósló við dagblaðið VG.

TV2 greinir frá því að árásarmaðurinn hafi verið vopnaður haglabyssu og skammbyssum og þegar tekið að hleypa af vopnum sínum eftir að hann kom inn í moskuna.

Per Iversen, aðgerðastjóri lögreglunnar á vettvangi, segir við norska ríkisútvarpið NRK að lögregla hafi átt í erfiðleikum með að skilja fyrstu tilkynningu um árásina vegna þess hve litla norsku tilkynnandi talaði. Hann segir lögreglu svo hafa áttað sig á alvöru málsins og hafi þá allt tiltækt lið verið sent á vettvang. Iversen segist geta staðfest þá frásögn að árásarmaðurinn hafi verið í einkennisbúningi og með hjálm og lögregla hafi fundið mörg skotvopn á staðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert