Hrundi því hún gat ekki staðið lengur

Ítalir minnast þess í dag að ár er nú liðið frá því að Morandi-brúin í Genúa hrundi með þeim afleiðingum að 43 létu lífið. Ummerki um þetta hörmulega slys eru þó enn sýnileg þar sem brak og beyglaðir stálbitar liggja eins og hráviður um svæðið.

Efnt verður til sérstakrar minningarathafnar í nágrenni þess staðar þar sem hluti brúarinnar hrundi í úrhellisrigningu og steypti tugum bíla og nokkrum flutningabílum á lestarteinana fyrir neðan. Tveir turnar brúarinnar sem eftir stóðu voru jafnaðir við jörðu með sprengingu í júní til að rýma fyrir nýjum mannvirkjum, en brak og beyglaðir stálbitar eru enn til vitnis um slysið.

„Ég býð öllum íbúum Genúa að taka þátt í athöfn til minningar um fórnarlömb Morandi-brúarinnar,“ sagði borgarstjórinn Marco Bucci og bað þá sem ekki geta mætt að viðhafa mínútuþögn hvar sem þeir séu staddir kl. 11.36 að staðartíma.

Morandi-brúin við ítölsku borgina Genúa hrundi, 43 létust í slysinu.
Morandi-brúin við ítölsku borgina Genúa hrundi, 43 létust í slysinu. AFP

Brú sem mun endast í þúsund ár

Til stendur að opna nýja brú úr steypu og stáli í stað þeirrar gömlu í apríl á næsta ári. Sú brú er hönnuð af Genúabúanum og arkitektinum Renzo Piano, sem fullyrðir að hún verði mun endingarbetri. „Þessi brú mun endast í þúsund ár,“ sagði Piano í fyrra. Nýja brúin, sem á að vera hvít og straumlínulaga, muni þá hafa vísun í báta þar sem „það sé eitthvað frá Genúa“.

Sú pólitíska kreppa sem nú er komin upp á Ítalíu, eftir að Matto Salvini innanríkis- og varaforsætisráðherra Ítalíu sleit í síðustu viku fimmstjörnusamstarfinu, hefur vakið áhyggjur Genúabúa af að þetta eigi eftir að seinka framkvæmdum.

„Ég vona að stjórnarkreppan muni ekki valda töfum á að ljúka gerð þessa mikilvæga mannvirkis,“ sagði Federico Romeo, sem fer með yfirumsjón í þeim borgarhluta þar sem brúin hrundi.

Lagadeila er líka enn í fullum gangi varðandi það hverjir …
Lagadeila er líka enn í fullum gangi varðandi það hverjir beri ábyrgð á slysinu. AFP

Brúarslysið ein ástæða stjórnarkreppunnar

Stjórnarkreppuna nú má raunar að hluta rekja til skiptra skoðana flokkanna á því hver beri ábyrgð á slysinu.

Lagadeila er líka enn í fullum gangi varðandi það hverjir beri ábyrgð á slysinu.

Fyrirtækið Autostrade, sem bar ábyrgð á Morandi-brúnni og er í eigu Benetton-fjölskyldunnar, ver sig gegn kröfum bæði fjölskyldna fórnarlambanna og stjórnmálamanna sem hafa sakað það um að setja eigin hagnað ofar öryggi vegfarenda.

Morandi-brúin, sem tekur nafn sitt frá arkitektinum sem hannaði brúna á sjöunda áratug síðustu aldar, „hrundi af því að hún gat ekki staðið lengur,“ sagði Francesco Cozzi saksóknari Genúa nýlega.

Alls hefur 71 verið kærður í tengslum við málaferlin, allt frá framkvæmdastjórum tveggja fyrirtækja Benetton, til opinberra starfsmanna.

Lög­regl­an hefur við rannsókn á málinu farið í gegn­um ára­tuga­löng tölvu­póst­sam­skipti sem og gríðarlegt magn annarra gagna, m.a. úr farsím­um. Von­ast er til þess að rann­sókn­in leiði í ljós hvað varð til þess að brú­in hrundi og hverj­um hafi verið um að kenna.

Yfirvöld óvirk í eftirlitinu

Í fréttaskýringu sem New York Times birti fyrr á árinu seg­ir að með tím­an­um hafi Autostra­de orðið svo valda­mikið, hagn­ast svo gríðarlega, að yf­ir­völd urðu lítið annað en óvirk­ur eft­ir­litsaðili.

Móður­fé­lagið Autostra­de hafi til að mynda einnig átt fyr­ir­tækið sem sá um að hafa eft­ir­lit með brúnni og ítölsk stjórn­völd hafi aldrei komið að því eftirliti. Þau fengu aðeins send gögn frá eft­ir­lits­fyr­ir­tæk­inu til samþykkt­ar.

Yfir 100 lögfræðingar, 120 sérfræðingar og 75 vitni koma að málaferlunum, auk tonna af skjölum og öðrum sönnunargögnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert