Svipti táninga frelsi með skotvopni

Jerri Kelly mætti strákunum með skotvopn og sagði þeim að …
Jerri Kelly mætti strákunum með skotvopn og sagði þeim að leggjast í jörðina. Ljósmynd/Twitter

Fjórum þeldökkum táningum í Arkansas-ríki í Bandaríkjunum var ógnað með skotvopni og þeir sviptir frelsi sínu er þeir gengu hús í hús að safna pening fyrir skólalið sitt nú fyrr í ágúst. Jerri Kelly, hvít kona á fimmtugsaldri, mætti drengjunum með byssu er þeir nálguðust hús hennar og skipaði þeim að leggjast í jörðina.

Fréttastofa ABC greinir frá.

Lögreglu hafði þá borist ábending um „grunsamlegar mannaferðir“ í hverfinu og þegar lögreglumenn mættu á vettvang sáu þeir Kelly standa yfir drengjunum með byssu í hendi, sagði lögreglustjórinn Jackie Clark í yfirlýsingu.

Lögreglumenn leyfðu strákunum að standa á lappir og voru tveir þeirra klæddir í peysur merktar ruðningsliði skóla þeirra. Þeir höfðu ekki gengið upp að húsi konunnar heldur voru þeir enn úti á götu þegar hún kom út úr húsi sínu og ógnaði þeim.

Kelly var handtekin síðar um daginn og ákærð fyrir árásir, frelsissviptingar og að leggja börn í alvarlega hættu.

Málið hefur vakið athygli víða um heim og hafa fjölmargir aðilar hringt í skólann og boðið íþróttaliði skólans fjárhagslega aðstoð.

mbl.is