Þáði milljarða frá Sádi-Aröbum

Omar al-Bashir, fyrrverandi forseti Súdans, var í sértöku búri þegar …
Omar al-Bashir, fyrrverandi forseti Súdans, var í sértöku búri þegar réttarhöld hófust yfir honum í dag. AFP

Omar al-Bashir, fyrrverandi forseti Súdans, þáði yfir 90 milljónir dollara í reiðufé frá konungsfjölskyldunni í Sádi-Arabíu, sem samsvarar um 11 milljörðum kr. Þetta er meðal þess sem rannsakandi fullyrti þegar réttarhöld hófust yfir al-Bashir í Khartoum, höfuðborg Súdans, í morgun. 

Óstjórn hef­ur ríkt í Súd­an síðan Omar al-Bashir var steypt af stóli í apríl og her­inn tók við völd­um við litla ánægju al­menn­ings. Al-Bashir var við völd í þrjátíu ár en hefur nú verið ákærður fyrir ýmis spillingarmál. 

Al-Bashir á einnig yfir höfði sér ákærur fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni fyrir árásir á almenna borgara í Darfur-héraði. Ákærurnar voru gefnar út af Alþjóðaglæpadómstólnum í Haag árið 2008. Herinn í Súdan hyggst ekki framselja forsetann fyrrverandi til Haag, heldur verður réttað yfir honum í heimalandinu, og þá eingöngu fyrir spillingarmál. 

Al-Bashir var fluttur í dómshúsið í Khartoum í gríðarmikilli lögreglufylgd og í dómssal var honum komið fyrir í lokuðu málmbúri. Hann er ákærður fyrir ýmis konar spillingu, meðal annars fyrir að hafa í fórum sínum háar upphæðir í erlendum gjaldeyri og að hafa þegið gjafir með ólögmætum hætti. 

Þá er hann einnig ákærður fyrir að hafa fjármagnað hryðjuverkastarfsemi og fyrirskipað að mótmælendur yrðu skotnir til bana, en fyrir síðasta ákæruliðinn getur hann átt yfir höfði sér dauðarefsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert