Ekki staður fyrir börn

Moria flóttamannabúðirnar á Lesbos.
Moria flóttamannabúðirnar á Lesbos. Oxfam

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, hefur óskað eftir því við grísk stjórnvöld að þau flytji ungmenni sem eru í flóttamannabúðum í landinu með hraði í öruggt skjól. Um helgina var ungur Afgani stunginn til bana í Moria-flóttamannabúðunum á eyjunni Lesbos. 

Talsmaður UNHCR í Grikklandi, Philippe Leclerc, segir í yfirlýsingu í dag að gríska ríkisstjórnin verði að grípa til aðgerða strax svo tryggt sé að börnum sé komið í öruggt skjól. Leclerc segir að honum hafi brugðið þegar hann heyrði að 15 ára afganskur unglingur hafi stungið samlanda sinn til bana og sært tvo aðra í Moria-búðunum. Drengirnir tveir sem særðust eru á sjúkrahúsi og var annar þeirra með lífshættulega áverka. Fjórði unglingurinn, sem einnig er frá Afganistan, var handtekinn af lögreglu í tengslum við slagsmálin segir í tilkynningu frá UNHCR. Ekki er vitað hvað kom slagsmálunum af stað. 

Þúsundir flóttamanna og hælisleitenda dvelja mánuðum saman í Moria og öðrum yfirfullum búðum á grísku eyjunum áður en umsóknir þeirra um hæli eru teknar fyrir. Grísk yfirvöld segja þetta meðal annars vera vegna fjölda umsókna og beiðna frá hælisleitendum sem eru að flýja efnahagslegar aðstæður en segjast falla undir skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna um flóttafólk. 

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað

Réttindahópar hafa varað við afleiðingum af langri bið fólks og oft án þess að fá upplýsingar um stöðu sína. Þetta reyni mjög á ólk sem hafi lagt að baki hættulegt ferðalag til Grikklands. Andleg líðan margra sé mjög slæm og fjölmargir glíma við áfallastreituröskun. 

Ný ríkisstjórn Grikklands ætlar að flýta hælisumsóknaferlinu og segir að þeim sem sé synjað um hæli verði sendir aftur til Tyrklands.

UNHCR segir að á öruggu svæði innan Moria-búðanna séu tæplega 70 fylgdarlaus börn en um 500 börn til viðbótar dvelji í öðrum hlutum búðanna. Þar sé enginn leið að gæta þeirra í mannmergðinni og þau í mikilli hættu á að verða fyrir misnotkun.

„Moria er ekki staður fyrir börn sem eru ein á flótta og hafa staðið frammi fyrir skelfilegum atburðum heima og á flóttanum. Þau þurfa á sérstökum stuðningi að halda í sérhæfðu skjóli,“ segir Leclerc.

Samkvæmt tölum frá SÞ eru yfir 8.500 flóttamenn nú í Moria-búðunum sem er fjórfalt fleiri en búðirnar geta hýst. Tæplega 2 þúsund flóttamenn og hælisleitendur komu sjóleiðina til Grikklands 12.-18 ágúst. Af þeim 22.700 flóttamönnum sem eru á grísku eyjunum í Eyjahafi eru yfir eitt þúsund fylgdarlaus börn. Þau hafa ekki verið jafn mörg í þrjú ár. 

Tæplega 900 þúsund hælisleitendur bíða eftir svari við umsókn þeirra eftir hæli í ríkjum Evrópusambandsins, samkvæmt nýlegum tölum frá Hagstofu Evrópu. Konur, karlar og börn sem eru ein á flótta hafa búið árum saman í óvissu um hvort þau fái alþjóðlega vernd en þetta er lítið færri en fyrir tveimur árum. Flestir þeirra eru í Þýskalandi, 44% og 12% á Ítalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert