Flaug með fyrirsætu í einkaþotu Epstein

Andrew prins átti vingott við auðkýf­inginn og barn­aníðinginn Jef­frey Ep­stein
Andrew prins átti vingott við auðkýf­inginn og barn­aníðinginn Jef­frey Ep­stein AFP

Andrew prins var meðal níu farþega um borð í einkaþotu Jeffrey Epstein árið 1999 ásamt rússneskri fyrirsætu.

Í frétt Guardian í kvöld kemur fram að níu hafi verið um borð í einkaþotunni sem flaug frá bandarísku Jómfrúareyjunum til Flórída í febrúar árið 1999. Fyrirsætan, Anna Malova, var 27 ára gömul á þessum tíma en hún var síðar dæmd í fangelsi fyrir að hafa ekki mætt í meðferð sem hún var úrskurðuð í af dómara í tengslum við misnotkun hennar á lyfseðilsskyldum verkjalyfjum.

Upplýsingarnar nú um flugferðina eykur enn þrýsting á prinsinn vegna tengsla hans við Epstein.

Jeffrey Epstein svipti sig lífi í fangaklefa í New York fyrr í mánuðinum. Epstein var sakaður um skipulagt mansal og áttu brotin sér flest stað í glæsihýsum hans á Manhattan og í Flórída á árunum 2002 til 2005. Epstein var sakaður um að hafa greitt stúlkum nokkur hundruð dali fyrir kynmök og kom fram í ákæru á hendur honum að yngstu fórnarlömb hafi verið allt niður í 14 ára gömul og honum hafi verið það fullljóst. Hann átti yfir höfði sér allt að 45 ára fangelsi.

Andrew hefur staðfastlega neitað því að hafa gert nokkuð rangt. Í yfirlýsingu frá honum í gær sagðist hann ekki hafa orðið var við neitt ólöglegt athæfi af hálfu Epstein. Vísaði hann þar til dóms yfir Epstein frá árinu 2008 þar sem hann var dæmdur fyrir kynmök við ungar stúlkur. Andrew viðurkennir að hafa gert mistök með því að halda áfram að vera í samskiptum við Epstein eftir dóminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert