Bjóða 10-12 milljarða dala sátt

Verkjalyf sem fólki var talin trú um að væru skaðlaus.
Verkjalyf sem fólki var talin trú um að væru skaðlaus. AFP

Lyfjafyrirtækið Purdue Pharma, sem framleiðir verkjalyfið OxyContin og er talið bera mesta ábyrgð þegar kemur að ópíóíðafaraldrinum í Bandaríkjunum, hefur boðist til þess að greiða 10-12 milljarða Bandaríkjadala í sátt til þeirra þúsunda sem hafa höfðað mál gegn fyrirtækinu. NBC News greindi frá þessu í gær. Fjárhæðin svarar til 1.252-1.502 milljarða króna.

Eigendur Purdue, Sackler-fjölskyldan, hafa verið gagnrýndir harðlega víða um heim fyrir markaðsaðferðir fyrirtækisins en fyrirtækið hefur beitt afar umdeildum aðferðum við að koma framleiðslu sinni sem víðast. Fjölskyldan á nú í viðræðum um sáttagerð í Cleveland í Ohio en styttist í dómsmál gegn tugum lyfjafyrirtækja sem framleiða og selja ópíóíða-verkjalyf. Meðal annars Actavis.

Forsvarsmenn Purdue staðfesta við fjölmiðla að viðræður séu í gangi en vilja ekki staðfesta fjárhæðina sem kom fram í fréttum NBC News í gær.

New York Times greindi frá því í gær að Sackler-fjölskyldan hafi boðist til þess að láta Purdue Pharma af hendi, það er að gefa frá sér persónulega eign sína í fyrirtækinu, og greiða 3 milljarða Bandaríkjadala í sátt. 

Purdue Pharma-lyfjafyrirtækið.
Purdue Pharma-lyfjafyrirtækið. AFP

Í yfirlýsingu frá Purdue Pharma kemur fram að fyrirtækið sé undir það búið að verjast ásökunum en um leið hafi fyrirtækið upplýst um að það sjái lítinn tilgang með lögsóknum og áfrýjunum næstu árin.

„Fólkið og samfélögin sem ópíóíðafaraldurinn hefur bitnað á þarf strax á hjálp að halda, Purdue telur að uppbyggileg alþjóðleg lausn sé besta leiðin og fyrirtækið vinnur að því hörðum höndum með ríkissaksóknara og öðrum embættismönnum að komast að niðurstöðu,“ segir í yfirlýsingunni. 

Bandaríska lyfjafyrirtækið Johnson & Johnson ætlar að áfrýja dómi héraðsdóms í Oklahoma sem dæmdi það til að greiða 572 milljónir dala, jafnvirði 74 milljarða króna, í bætur fyrir þátt sinn í ópíóðafaraldri í ríkinu. Þetta var fyrsti dómurinn í um 2.000 málum sem sambandsríki og sveitarfélög í Bandaríkjunum hafa höfðað gegn fyrirtækjum sem framleiða og dreifa verkjalyfjum sem innihalda ópíóða. Flest þessara mála verða sameinuð í einu dómsmáli sem dómstóll í Ohio tekur fyrir í október.

Rúmlega 6.000 íbúar Oklahoma hafa dáið af völdum ofneyslu ópíóðalyfja frá árinu 2000. Í öllum Bandaríkjunum voru nær 400.000 dauðsföll á árunum 1999 til 2017 rakin til ofneyslu ópíóða, samkvæmt opinberum gögnum. Dauðsföllin voru nær 72.000 á árinu 2017.

Fyrr á árinu náðu saksóknarar í Oklahoma samkomulagi við tvö lyfjafyrirtæki um að þau greiddu bætur fyrir þátt sinn í ópíóðafaraldrinum í ríkinu. Purdue Pharma féllst á að greiða 270 milljónir dala (33,8 milljarða króna) og Teva Pharmaceutical 85 milljónir dala (10,6 milljarða króna).

Samkomulag náðist hins vegar ekki við Johnson & Johnson og dómarinn í málinu komst að þeirri niðurstöðu eftir sjö vikna réttarhöld að fyrirtækinu bæri að greiða 572 milljónir dala sem á að nota til að standa straum af kostnaði vegna aðstoðar við fólk sem varð háð ópíóðalyfjum og fjölskyldur þess. Saksóknararnir höfðu krafist þess að fyrirtækinu yrði gert að greiða 17 milljarða dala, jafnvirði 2.100 milljarða króna, til að standa straum af kostnaðinum vegna ópíóðafaraldursins næstu 30 árin. 

mbl.is