Páfinn festist í lyftu

Vikuleg predikun Frans páfa hófst tíu mínútum of seint þar …
Vikuleg predikun Frans páfa hófst tíu mínútum of seint þar sem páfinn festist í lyftu. AFP

Frans páfi hóf vikulega predikun sína á Péturstorginu í Róm á því að biðjast afsökunar á að koma of seint. Predikunin hófst tíu mínútum á eftir áætlun og segir AFP-fréttastofan seinkunina algjörlega fordæmalausa. 

Ástæða seinkunarinnar hljómar eins og upphafið á lélegum brandara. Páfinn festist nefnilega í lyftu sökum rafmagnsleysis í Vatíkaninu. 

Slökkviliðsmenn komu páfanum til bjargar, en hann var fastur í lyftunni í um 25 mínútur. Þegar predikunin hófst bað hann þá sem hlýddu að klappa slökkviliðsmönnunum lof í lófa og ekki stóð á viðbrögðunum. 

Predikunin er ávallt send út í beinni útsendingu og voru ítalskir sjónvarpsmenn farnir að óttast um heilsu páfans. Þeim var því ansi létt þegar páfinn birtist en þetta ku vera í fyrsta sinn sem páfi festist í lyftu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert