Sáu lík fljóta í síki á Spáni

Áin Segura flæddi yfir bakka sína.
Áin Segura flæddi yfir bakka sína. AFP

Björgunarfólk leitar að hollenskum manni sem saknað hefur verið í suðausturhluta Spánar þar sem úrhellisrigning hefur leikið svæðið grátt síðustu daga. Sex manns hafa verið úrskurðaðir látnir vegna vatnavaxtanna og óttast er að þeir verði fleiri, sér í lagi þar sem vegfarendur töldu sig sjá lík fljóta í síki í borginni Dolores sem er 40 km suðvestur af Alicante. Lögreglan telur að þetta hafi verið lík hollenska mannsins sem er 66 ára gamall. 

Svæðin sem hafa orðið verst úti eru Valencia, Murcia og austurhluti Andalúsíu. Enn rignir á nokkrum svæðum og hefur veðustofa Spánar gefið út viðvörun í dag vegna hættu á mikilli úrkomu í Castilla La Mancha, Castilla y Leon, La Rioja, Aragon and Galicia.

Forsætisráðherra landsins, Pedro Sanchez, hefur á síðustu dögum heimsótt nokkur svæði sem urðu illa úti og í dag fer hann til Andaluciú og Castilla La Mancha til að skoða ástandið. 

Samgöngur hafa farið úr skorðum víða vegna gríðarlegra flóða því ár hafa flætt yfir bakka sína. Um 1.300 hermenn hafa aðstoðað fólk við að komast af heimilum sínum. Núna keppist fólk við að hreinsa heimili sín, laga mannvirki og síðast en ekki sís að koma samgöngum aftur í samt lag. 

Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, flýgur yfir svæðin sem urðu verst …
Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, flýgur yfir svæðin sem urðu verst úti, nálægt Orihuela. AFP
Unnið er að því að hreinsa lestarteina svo unnt sé …
Unnið er að því að hreinsa lestarteina svo unnt sé að koma samgöngum aftur í samt lag. AFP
mbl.is