Segja Kína standa að netárás á ástralska þingið

Netárásin var gerð um þremur mánuðum fyrir þingkosningar í Ástralíu.
Netárásin var gerð um þremur mánuðum fyrir þingkosningar í Ástralíu. AFP

Áströlsk leyniþjónustustofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að kínversk stjórnvöld hafi staði að baki netárás á ástralska þjóðþingið og þrjá stærstu stjórnmálaflokka landsins. Árásin átti sér stað áður en Ástralar gengu að kjörborðinu í maí á þessu ári, að því er Reuters fréttaveitan hefur eftir fimm heimildamönnum sem þekkja til rannsóknarinnar.

Reuters segir ASD, sem er sú leyniþjónustustofnun sem fer með netöryggi, hafa komist að því að kínverska heimavarnarráðuneytið hafi borið ábyrgð á árásunum og er þetta sagt koma fram í leynilegri skýrslu stofnunarinnar. Þar kemur einnig fram að ástralska utanríkisráðneytið mæli með að niðurstöðunum verð haldið leyndum til að hafa ekki áhrif á viðskiptatengsl ríkjanna.

Greint var frá netárásinni í febrúar á þessu ári, en áströlsk yfirvöld hafa aldrei gefið upp hver þau telji hafa staðið að baki henni. Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, sagði á sínum tíma um háþróaða árás að ræða sem erlent ríki stæði líklega á bak við. Nú neitaði hann hins vegar að tjá sig við Reuters um árásina eða niðurstöður skýrslunnar þegar eftir því var leitað. Það sama hafi  ASD gert.

Kínverska utanríkisráðuneytið hefur einnig neitað allri aðild að netárásum og sagði netheima vera fulla af kenningum sem erfitt væri að rekja. „Þegar verið er að rannsaka og ákvarða uppruna atvika á netinu þá verða staðreyndir að liggja fyrir, annars er bara verið að dreifa orðrómi,“ sagði í yfirlýsingu ráðuneytisins sem ítrekaði að Kínverjar væru líka fórnarlömb netárása.

Mikil viðskipti eru milli ríkjanna og eru áströlsk yfirvöld sögð óttast að það muni valda efnahag landsins „verulegum skaða“ verði kínversk stjórnvöld opinberlega sökuð um árásina.

Eftir að árásin var gerð voru þingmenn og starfsfólk þinghússins hvatt til að breyta lykilorðum. Eins olli hún áhyggjum af að árásin væri gerð í þeim tilgangi að reyna að hafa áhrif á niðurstöður kosninganna, en að því er Reuters hefur eftir einum heimildamanna sinna er ekkert sem bendir til þess að slíkt hafi verið reynt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert