Opna hjálparsíma vegna Gretu Thunberg

Maðurinn er áhyggjufullur yfir aðgerðum Thunberg.
Maðurinn er áhyggjufullur yfir aðgerðum Thunberg. Skjáskot/Mark Humphries

Fullorðið fólk sem er reitt vegna aðgerða hinnar 16 ára gömlu Gretu Thunberg gegn neikvæðri þróun í loftslagsmálum getur nú andað léttar.

Háðsádeiluhöfundurinn Mark Humphries og meðhöfundur hans Evan Williams hafa skapað nýja þjónustu fyrir þennan hóp. The Greta Thunberg Helpline, eða hjálparsíma vegna Thunberg. 

„Ég er miðaldra karlmaður með vandræðalegt vandamál. Ég verð óskynsamlega reiður við sænska stelpu sem vill bjarga jörðinni. Sem betur fer get ég nú hringt í hjálparsíma,“ segir karlmaður í byrjun kynningarmyndbandsins sem má sjá hér að neðan. 

„Þessi kvíði hennar er óþarfur. Hún lætur heimsendi hljóma eins og hann sé heimsendir,“ segir annar. 

„Þessi skrípaleikur hefur gengið of langt. Nú er hún að tala fyrir framan þykjustu Sameinuðu þjóðirnar,“ segir sá þriðji, Humphries sjálfur. Þá svarar þjónustufulltrúi því til að Thunberg hafi reyndar haldið erindi fyrir framan hinar raunverulegu Sameinuðu þjóðir. 

Meta stöðuna áður en fólk grípur í hástafina

Þjónustufulltrúar hjálparsímans taka umkvörtunarefnum skjólstæðinga sinna með stóískri ró og reyna hvað þeir geta að útskýra málið betur.

„Áður en þú skrifar hugsanir þínar í hástöfum á netmiðla skaltu hringja í okkur og leyfa þjónustufulltrúum okkar að meta stöðuna sem þú ert í,“ segir í kynningarmyndbandinu. 

„Þetta er allt í lagi. Við skiljum að þegar börn haga sér eins og fullorðið fólk byrjar fullorðið fólk gjarnan að haga sér eins og börn,“ segir vinaleg rödd hjálparsímans enn fremur í myndbandinu. 

Hvort þjónustan sé raunveruleg eða einföld háðsádeila er þó óljóst en ekkert símanúmer fylgir því. 

Markhópur fyrir hjálparsíma sem þennan er þó ótvírætt til staðar þar sem fullorðnir einstaklingar, hérlendis sem erlendis, hafa tjáð sig um Gretu á neikvæðan hátt undanfarið. 

mbl.is