Neita því að hafa átt við flugrita

AFP

Forsvarsmenn Ethiopian Airlines neituðu því í dag að hafa átt við upptökur úr flugrita Boeing 737 MAX-þotunnar sem fórst í mars líkt og uppljóstrari sem starfaði hjá félaginu heldur fram. Allir um borð, 157 manns, létust. 

Eftir flugslysið, sem varð skammt frá Addis Ababa, voru allar Boeing-þotur af sömu tegund kyrrsettar og hafa verið það síðan. Slysið er rakið til bilunar í MCAS-kerfinu líkt og þegar þota Lion Air fórst fyrir ári. 189 létust í því flugslysi. 

Fyrrverandi yfirflugvirki Ethiopian Airlines, Yonas Yeshanew, sem hefur sótt um hæli í Bandaríkjunum, segir að ýmislegt gruggugt sé að finna í rekstri flugfélagsins. Hann segir að einhver frá flugfélaginu hafi verið inni í hljóðritakerfinu eftir slysið. Hann segist ekki vita  með fullri vissu hvort einhverju hafi verið breytt en vísar í fyrri sögu um fölsun á upptökum og fleira í þeim dúr. 

mbl.is