Lak upplýsingum til fjölmiðla

Bandaríska dómsmálaráðuneytið.
Bandaríska dómsmálaráðuneytið. AFP

Sérfræðingur í hryðjuverkum hjá bandarísku leyniþjónustustofnuninni (DIA) var handtekinn í gær grunaður um að hafa lekið ríkisleyndarmálum til blaðamanna.

Henry Kyle Frese, sem er þrítugur að aldri, var handtekinn og færður í varðhald þegar hann kom til vinnu í gær. Hann á yfir höfði sér ákæru í tveimur liðum.

Aðstoðarsaksóknari, John Demers, segir að Frese hafi verið gripinn glóðvolgur við að upplýsa um viðkvæm ríkisleyndarmál sjálfum sér til hagsbóta. 

Dómsmálaráðuneytið hefur ekki upplýst um hvaða upplýsingar Frese á að hafa lekið til fjölmiðla annað en að meðal annars varði þær vopnakerfi erlendra ríkja. Ekki hefur verið upplýst um hverjir blaðamennirnir eru sem hann á að hafa veitt upplýsingarnar annað en þeir eru tveir. Samkvæmt færslum á Twitter-þræði Frese starfa þeir hjá CNBC og NBC News.

CNBC, sem vísar beint í heimildir úr leyniskýrslum, greindi frá aðgerðum Kínverja á Spratly-eyjum í maí 2018, segir í frétt AFP en CNBC hefur ekki tjáð sig um handtökuna.

Frese á að hafa átt í ástarsambandi við annan blaðamanninn, samkvæmt upplýsingum sem komu fram fyrir héraðsdómi í Virginia í tengslum við málið í gær.

Frese var verktaki hjá DIA frá janúar 2017 til febrúar 2018 en hefur verið fastráðinn starfsmaður síðan þá. DIA er leyniþjónusta hersins. Hann á yfir höfði sér tíu ára fangelsisdóm fyrir hvort brot verði hann fundinn sekur.

mbl.is