Tveir samstarfsmenn Giulianis ákærðir

Rudy Giuliani, lögmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
Rudy Giuliani, lögmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta. AFP

Tveir samstarfsfélagar Rudys Giuliani, lögfræðings Donalds Trump Bandaríkjaforseta, voru ákærðir fyrir að brjóta gegn lögum um fjármögnun kosningaherferða.

Mennirnir tveir, Lev Parnas og Igor Fruman, tóku þátt í að fjármagna tilraunir Giulianis til þess að koma af stað rannsóknum á Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og þátttakanda í forvali bandaríska Demókrataflokksins vegna forsetakosninganna á næsta ári, og syni hans, Hunter Biden, í Úkraínu. Biden yngri hefur setið í stjórn orkufyrirtækis í Úkraínu sem stjórnvöld þar hafa verið að rannsaka.

Tveir aðrir menn hafa verið ákærðir, David Correia og Andrey Kukushkin. Fram kemur í frétt bandaríska dagblaðsins New York Times að Parnas og Fruman hafi haft það hlutverk að vera fulltrúar Giulianis í Úkraínu, en þeir eru framkvæmdastjórar orkufyrirtækis með höfuðstöðvar í Flórída-ríki sem lagði fé í kosningasjóð Trumps en ákæran á hendur þeim snýst um það hvernig staðið var að þeim greiðslum.

Demókratar á bandaríska þinginu hafa sett af stað ferli sem miðar að því að koma Trump frá völdum en tilefnið er símtal sem forsetinn átti við Volodimír Zelenskí, forseta Úkraínu, þar sem hann hvatti til þess að Biden-feðgar yrðu rannsakaðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert