Frönsk stjórnvöld óttast afleiðingarnar

Árásir Tyrkja gegn Kúrdum í Sýrlandi hafa staðið yfir í …
Árásir Tyrkja gegn Kúrdum í Sýrlandi hafa staðið yfir í fimm daga. AFP

Frönsk stjórnvöld eru „áhyggjufull“ í kjölfar fregna um að mörg hundruð ættingjum vígamanna hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams, ISIS, hefði tekist að flýja fangabúðir í norðurhluta Sýrlands eftir að tyrkneski herinn réðst að hersveitum Kúrda á svæðinu. Talið er að um 800 manns hafi sloppið.

„Að sjálfsögðu erum við áhyggjufull um það sem gæti gerst og þess vegna viljum við að Tyrkir láti af árásum sínum tafarlaust,“ ef haft eftir Sibeth Ndiaye, talskonu franskra stjórnvalda, í franska miðlinum France 3.

Sýrlenski lýðræðisherinn (SDF), sem er undir stjórn Kúrda, hefur varað við því að hann geti ekki einbeitt sér að fangavörslu á meðan þeir verjist árásum Tyrkja sem hafa nú staðið yfir í fimm daga.

„Fangavarsla er ekki lengur forgangsmál hjá okkur. Hverjum þeim sem vill tryggja varðhald fanganna er velkomið að leita lausna,“ sagði í yfirlýsingu frá hátt settum yfirmanni Kúrda.

Ndiyae sagði ennfremur að frönsk stjórnvöld viti ekki, á þessari stundu, hverjir það eru nákvæmlega sem sluppu úr fangabúðunum og ítrekaði þá afstöðu franskra stjórnvalda að réttað verði yfir frönskum liðsmönnum ISIS í því landi sem þeir eru handsamaðir.

Þá hafa frönsk stjórnvöld áhyggjur af öðrum mögulegum afleiðingum árása Tyrkja á Sýrland og það er að hátt í 400 þúsund óbreyttir borgarar gætu þurft að flýja heimili sín sem yrði „alvarlegt mannúðarvandamál.“

Margir kúrdískir hermenn hafa látið lífið í átökunum.
Margir kúrdískir hermenn hafa látið lífið í átökunum. AFP
mbl.is