ISIS-fjölskyldur sleppa úr haldi

Tyrkneski herinn á leið að sýrlensku landamærunum fyrr í vikunni.
Tyrkneski herinn á leið að sýrlensku landamærunum fyrr í vikunni. AFP

Ættingjum vígamanna hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við Ríki íslams, ISIS, hefur tekist að flýja fangabúðir í norðurhluta Sýrlands, eftir að tyrkneski herinn réðst að sveitum Kúrda á svæðinu. AFP hefur eftir kúrdískum stjórnvöldum að nærri 800 manns hafi sloppið.

Sýrlenski lýðræðisherinn (SDF), sem er undir stjórn Kúrda, hefur varað við að hann geti ekki einbeitt sér að fangavörslu á sama tíma og hann eigi í baráttu við Tyrki, en þeir hafa nú haft landsvæði Kúrda á sínu valdi í fimm daga eða frá því Donald Trump Bandaríkjaforseti dró herlið landsins frá landamærunum að Tyrklandi.

„Fangavarsla er ekki lengur forgangsmál hjá okkur. Hverjum þeim sem vill tryggja varðhald fanganna, er velkomið að leita lausna,“ segir í yfirlýsingu frá háttsettum yfirmanni Kúrda.

Um 130.000 Kúrdar hafa flúið heimili sín og yfir 80 hermenn og 50 óbreyttir borgarar látist, beggja vegna landamæranna, en Tyrkir stefna að því að hrekja Kúrda, sem þeir kalla hryðjuverkamenn, af svæði innan Sýrlands sem er innan við 30 kílómetra frá tyrknesku landamærunum.

Mótmælendur í Berlín veifa fána Kúrda og blaði, sem á …
Mótmælendur í Berlín veifa fána Kúrda og blaði, sem á stendur „Erdogan er hryðjuverkamaður“. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert