Virða ákvörðun Gretu

Greta Thunberg tók þátt í göngu Sustainabiliteens í Vancouver í …
Greta Thunberg tók þátt í göngu Sustainabiliteens í Vancouver í vikunni. AFP

„Við virðum bæði ákvörðun Gretu Thunberg og rökstuðning hennar,“ segir Hans Wallmark, forseti Norðurlandaráðs, um þá ákvörðun hennar að afþakka umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.

„Sú hreyfing sem Greta Thunberg er í forsvari fyrir hefur áhrif á og er hvatning fyrir heila kynslóð. Það er virðingarvert. Við ættum öll, ekki aðeins innan norræna samstarfsins, að hlusta á rödd hennar og annarra sem krefjast aðgerða.“

Að sögn Wallmarks mun Norðurlandaráð nú athuga vandlega hvað gert verði við verðlaunaféð sem nemur 350 þúsundum danskra króna, tæpum 6,5 milljónum íslenskra króna.

Isabelle Axelsson og Sophia Axelsson töluðu fyrir hönd Gretu á …
Isabelle Axelsson og Sophia Axelsson töluðu fyrir hönd Gretu á verðlaunaafhendingunni í gærkvöldi. norden.org

Verðlaunahátíð Norðurlandaráðs var haldin í tónleikahúsinu Konserthuset í Stokkhólmi í gærkvöldi. Í þakkarræðunni, sem tveir aðgerðasinnar í loftslagsmálum, Isabelle Axelsson og Sophia Axelsson frá samtökunum FridaysForFuture, fluttu fyrir hönd Gretu þar sem hún er stödd í Kaliforníu, sagði hún það heiður að hafa hlotið verðlaunin en að hún gæti ekki þegið þau:

„Ég vil þakka Norðurlandaráði fyrir þessa viðurkenningu. Þetta er mikill heiður. En loftslagshreyfingin þarf ekki á fleiri verðlaunum að halda. Það sem við þurfum er að valdhafar og stjórnmálafólk hlusti á það sem vísindin hafa fram að færa.“

Þær fluttu erindi frá Gretu þar sem hún sagði meðal annars að heimurinn þyrfti ekki á fleiri umhverfisverðlaunum að halda.

FridaysForFuture er hreyfingin sem Greta Thunberg kom af stað í ágúst 2018 þegar hún fór í þriggja vikna skólaverkfall til að sitja fyrir framan sænska þinghúsið og mótmæla skorti á loftslagsaðgerðum af hendi stjórnmálamanna.

Sjálf er Greta sem stendur á ferðalagi vestanhafs. Hún áformar að vera viðstödd loftslagsviðræður Sameinuðu þjóðanna í Chile í desember.

Rökstuðningur dómnefndar

Þema verðlaunanna í ár var „verkefni sem styðja við sjálfbæra neyslu og framleiðslu með því að gera meira og betur með minna“. Greta Thunberg var tilnefnd af bæði Svíþjóð og Noregi.

Rökstuðningur dómnefndar: Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2019 hlýtur Greta Thunberg fyrir að hafa blásið auknu lífi í umræðuna um loftslags- og umhverfismál á örlagaríkum tímapunkti í veraldarsögunni og orðið milljónum manna um allan heim innblástur til að krefjast veigamikilla aðgerða af hálfu stjórnmálamanna.

Síðan Greta fór í sitt fyrsta skólaverkfall hefur hún ekki aðeins komið af stað alþjóðlegri loftslagshreyfingu heldur einnig vakið okkur til umhugsunar um neyslumynstur okkar og bent á þörfina fyrir pólitískar aðgerðir til að minnka neyslu á vöru og þjónustu sem útheimtir mikið af jarðefnaeldsneyti og öðrum auðlindum. Með eigin skýra fordæmi hefur Greta vísað fjölda fólks veginn og vakið það til vitundar með aðferðum sem virðast þegar hafa haft áhrif á neyslu almennings og ferðavenjur, alveg í takt við tólfta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: „Ábyrg neysla og framleiðsla“, sem er einnig þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs nú í ár.

Á skömmum tíma hefur Gretu tekist betur en nokkrum öðrum að auka meðvitund almennings í norrænu löndunum og annars staðar í heiminum um loftslags- og umhverfismál. Af þrautseigju og sannfæringarkrafti hefur hún hvatt heimsbyggðina til að taka mark á rannsóknaniðurstöðum og grípa til aðgerða á grunni staðreynda. Hún hefur þegar látið svo mikið að sér kveða að talað er um hnattræn „Gretu Thunberg-áhrif“.

Greta hefur bæði náð til leiðtoga og ráðamanna heimsins og barna og ungmenna í norrænu löndunum, Evrópu og víðar. Með því að hvetja stjórnmálamenn til að taka loftslags- og umhverfisvána alvarlega og láta ekki staðar numið við að ræða ný og umhverfisvænni störf hefur hún stuðlað að auknu jafnvægi í stjórnmálaumræðunni.

Þegar hún mætir andstöðu og fær að heyra frá fullorðnum að ekki taki því að láta sig þessi mál varða, að það sé hvort sem er um seinan, svarar hún: „… maður er aldrei of lítill til að leggja sitt af mörkum“.  Og það hefur hún svo sannarlega sýnt.

mbl.is