Greg Johnson handtekinn í Ósló

Bandaríski hægriöfgamaðurinn og bókaútgefandinn Greg Johnson var handtekinn í Ósló …
Bandaríski hægriöfgamaðurinn og bókaútgefandinn Greg Johnson var handtekinn í Ósló í morgun þar sem honum var ætlað að koma fram á Scandza Forum, ráðstefnu þjóðernissinna í Skandinavíu sem reglulega hefur verið haldin í Danmörku, Noregi og Svíþjóð síðan 2017. Johnson hyllti Anders Behring Breivik árið 2012 og sagði hann hafa gripið til sjálfsvarnar gegn þjóðarmorði norska Verkamannaflokksins þar sem innflytjendur væru vopnið. Ljósmynd/Heimasíða Scandza Forum

„Ég get staðfest að hann var handtekinn með heimild í 106. grein útlendingalaganna [n. utlendingsloven],“ segir Martin Bernsen, talsmaður norsku öryggislögreglunnar PST, í samtali við ríkisútvarpið NRK í dag og segir frá handtöku bandaríska hægriöfgamannsins Greg Johnson, ritstjóra vefsíðunnar og bókaútgáfunnar Counter-Currents sem meðal annars hefur sent frá sér bækur á borð við The White Nationalist Manifesto og Towards a New Nationalism sem auk annars efnis útgáfunnar hampa yfirburðum hvíta kynstofnsins.

Téð grein útlendingalaganna fjallar um hvenær norsk lögregla hefur heimild til að handtaka útlending á norsku yfirráðasvæði og eftir atvikum vísa honum úr landi svo sem raunin verður í tilfelli Johnson.

Tilgangur heimsóknar Johnson til Óslóar var að koma fram á Scandza Forum, ráðstefnu norskra þjóðernissinna, þar sem honum var ætlað að sitja í öndvegi sem helsti gestafyrirlesarinn. Ekkert varð af þessu þar sem lögreglan í Ósló handtók Johnson klukkan 10:50 í morgun að norskum tíma og situr hann nú í varðhaldi þar til honum verður fylgt úr landi.

Blygðunarlaus boðun nasisma

Ráðstefnan, sem ætlaður var staður á Sinsen í Ósló, er hins vegar lögleg að sögn lögreglu og öll leyfi fyrir henni afgreidd. Ekki er hins vegar vitað hvað úr verður eftir að helsti hugmyndafræðingur fundargesta er horfinn á braut auk þess sem norskir fjölmiðlar greina frá því að aðrir hópar séu mættir á staðinn til að mótmæla ráðstefnuhaldinu.

„Þeir [Johnson og ráðstefnugestir] halda blygðunarlaust á lofti höfuðatriðum hugmyndafræði nasista, kynþáttastefnu og hugmyndum um alheimssamsæri gyðinga [n. den jødiske verdenssammensvergelsen],“ segir Terje Emberland, rannsakandi við Fræðamiðstöð helfararinnar og hugmyndafræðilegra minnihlutahópa (n. Senter for studier av holocaust og livssynsminoriteter) við Dagbladet og fer ekki í grafgötur með andúð sína.

„Þessi þjóðernishugmyndafræði hefur átt sér ýmsar birtingarmyndir gegnum tíðina, en kjarninn í henni er alltaf sá sami þótt ný rök og ný orðræða spretti upp. Þetta fólk marserar ekki í einkennisbúningum með hakakrossa, en það dregur ekki úr því að þetta eru nasistar,“ segir Emberland enn fremur.

Hyllti Breivik

Scandza Forum-ráðstefnurnar hafa verið haldnar reglulega í Noregi, Danmörku og Svíþjóð síðan 2017 og hefur Greg Johnson þar jafnan verið fastagestur og innsti koppur í búri en frægt varð þegar hann hyllti norska fjöldamorðingjann Anders Behring Breivik árið 2012 og sagði hann hafa gripið til sjálfsvarnar gegn norska Verkamannaflokknum sem „stendur á bak við þjóðarmorð á þjóðernislegum [e. ethnic] Norðmönnum með aðflutningi útlendinga“.

Við sama tækifæri hélt Johnson því fram að Breivik væri „afurð gyðingastýrðrar and-jihad-hreyfingar [e. a product of the Jewish-controlled Counter-Jihadist movement]“ og lýsti áhyggjum sínum af því að gjörðir norska þjóðernissinnans yrðu til þess að skaða hreyfingu hvítra þjóðernissinna í Noregi og um heim allan.

Ekki verður séð að aðstandendur Scandza Forum hafi tjáð sig við norska fjölmiðla um handtöku Johnsons þegar þetta er skrifað. Það var vefsíðan Filter Nyheter sem fyrst greindi frá því að Johnson væri væntanlegur til Óslóar.

Aftenposten

VG

Vårt Oslo

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert