Nemandi í fjárhagskröggum kveikti í sér

Kærasta mannsins lét yfirvöld vita eftir að hann lét hana …
Kærasta mannsins lét yfirvöld vita eftir að hann lét hana vita af áætlunum sínum í textaskilaboðum. AFP

22 ára gamall franskur nemandi er í lífshættu eftir að hann kveikti í sjálfum sér vegna fjárhagsvandræða. 

Maðurinn birti stöðuuppfærslu um fjárhagsörðugleika sína á samfélagsmiðlinum Facebook nokkrum klukkustundum áður en hann kveikti í sjálfum sér fyrir utan veitingastað á háskólasvæðinu. BBC greinir frá þessu.

Nemandinn kenndi Emmanuel Macron, forseta Frakklands, Evrópusambandinu og tveimur forverum Macrons í starfi um atvikið. Sagði nemandinn að þessir aðilar hefðu „drepið hann“. Sömuleiðis sagði hann öfga-hægri leiðtogann Marine Le Pen og fjölmiðla bera ábyrgð.

Í færslunni sagði maðurinn, sem var í námi við háskólann í Lyon, að hann hefði ekki lengur styrk til að standa frammi fyrir fjárhagslegri byrði daglegs lífs en hann sagðist lifa á 450 evrum, eða því sem nemur rúmum 60.000 íslenskum krónum, mánaðarlega.

„Berjumst gegn risi fasisma sem sundrar okkur bara... og frjálslyndi sem skapar misrétti,“ skrifaði maðurinn. 

Líf námsmanna brothætt

„Ég ásaka Macron, Hollande, Sarkozy og Evrópusambandið um að hafa drepið mig með því að hafa skapað óvissu um framtíð allra, ég ásaka sömuleiðis Le Pen og ritstjóra fjölmiðla um að hafa skapað ótta,“ stóð í færslu mannsins.

Hann sagðist miða að því að skapa pólitískan vettvang með voðaverkinu, fyrir framan veitingastaðinn þar sem hann kveikti í sér. 

Kærasta mannsins lét yfirvöld vita eftir að hann lét hana vita af áætlunum sínum í textaskilaboðum. 

Stúdentasamtökin SUD-Éducation og Solidaires sögðu í kjölfar atviksins að líf námsmanna væru brothætt. „Verknaðinn er ekki hægt að rekja einungis til örvæntingar,“ sögðu þau í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert