Færeyjum verður aftur lokað næsta vor

Fær­ey­ing­ar létu þau boð út ganga í fyrra að til …
Fær­ey­ing­ar létu þau boð út ganga í fyrra að til stæði að loka helstu ferðamanna­stöðum eyj­anna eina helgi í lok apríl og bjóða sjálf­boðaliðum að koma og hjálpa til við að laga þar til og búa staðina und­ir sum­arið. Og nú verður leikurinn endurtekinn. Ljós­mynd/​Visit Faroe is­lands

Helstu ferðamannastöðum á Færeyjum verður lokað helgina 16. — 17. apríl á næsta ári vegna viðhalds þar sem 100 sjálfboðaliðar  munu undirbúa staðina fyrir sumarið. Svipað fyrirkomulag var haft á í vor og gafst það vel.

Greint er frá þessu á vefsíðu færeyskra ferðamálayfirvalda: Visit Faroe Islands, en þar segir að opnað hafi verið fyrir umsóknir í gær og 100 manns verði valdir úr hópi þeirra sem sækja um. Umsóknarfrestinum lýkur í dag og þeir heppnu verða látnir vita í næstu viku hvort þeir verði í hópi sjálfboðaliðanna.

Sjálfboðaliðarnir greiða sjálfir fyrir flugfarið til Færeyja, en þeim verður séð fyrir fæði og gistingu þessa daga. 

Í vor voru sjálfboðaliðarnir líka 100, þeir komu frá 25 löndum og unnu við hlið heimamanna að því að gera vinsæla ferðamannastaði reiðubúna fyrir sumarið. Stjórnir viðkomandi sveitarfélaga, ferðamannayfirvöld og íbúar á svæðinu meta hvað þarf að gera á hverjum stað. Meðal verkefna sem liggja fyrir er að leggja göngustíga, útbúa útsýnisstaði, reisa við fallnar vörður og setja upp upplýsingaskilti.

Á vefsíðunni segir að þó að ekki sé hægt að tala um of marga ferðamenn í Færeyjum, hafi aukinn straumur ferðamanna þangað haft áhrif á náttúru eyjanna. Þeim hafi fjölgað um 10% undanfarin ár og nú komi þangað um 110.000 ferðamenn á hverju ári. 

Hér er hægt að sækja um að gerast sjálfboðaliði í Færeyjum helgina 16. - 17. apríl 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert