5% norskra barna verða fyrir alvarlegu ofbeldi

Eitt af hverjum tuttugu börnum í Noregi verður fyrir alvarlegu …
Eitt af hverjum tuttugu börnum í Noregi verður fyrir alvarlegu ofbeldi á heimili sínu og álíka mörg norsk börn verða fyrir kynferðislegu ofbeldi heima hjá sér. Myndin er sviðsett. mbl.is/ Eggert Jóhannesson

Eitt af hverjum tuttugu börnum í Noregi verður fyrir alvarlegu ofbeldi á heimili sínu og álíka mörg norsk börn verða fyrir kynferðislegu ofbeldi heima hjá sér. Meira en helmingur segir engum frá ofbeldinu Þetta sýnir ný norsk rannsókn. 

Þetta samsvarar því að 200.000 norsk börn og ungmenni 17 ára og yngri verði fyrir ofbeldi á heimilum sínum, eða fimm börn í hverjum bekk í grunnskóla.

Greint er frá niðurstöðum rannsóknarinnar á vefsíðu norska ríkisútvarpsins, NRK, en rannsóknin var gerð fyrr á þessu ári af Norsku rannsóknarstofnuninni um ofbeldi og áfallaröskun, NKVTS, og byggir á viðtölum við hátt í 10.000 börn og ungmenni á aldrinum 12 til 16 ára. Þetta er fyrsta stóra rannsóknin í Noregi sem gerð er á högum ungmenna án þess að samþykki foreldra þurfi til.

Spörk og barsmíðar

Í umfjöllun NRK kemur m.a. fram að með alvarlegu ofbeldi sé átt við spörk, að vera slegin/n með hörðum hlut eða verkfæri eða að sæta barsmíðum. Þá kemur þar fram að í 25% tilfella um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum sé ofbeldismaðurinn foreldri barnsins. Eitt af hverjum fimm börnum hefur verið klipið, löðrungað eða hrist til og jafn hátt hlutfall barna hefur upplifað ítrekaðar andlegar árásir af hendi foreldra sinna.

56% þeirra barna sem hafa orðið fyrir ofbeldi heima fyrir hafa ekki sagt neinum frá því ofbeldi sem þau sæta og 44% barnanna sem höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi hafa engum sagt frá. Eitt af hverjum fimm börnum segist hafa fengið aðstoð frá sveitarfélaginu sínu og um eitt af hverjum sex segja að þau hafi engan til að tala við um aðstæður sínar.

Nauðsynlegt að fjölga úrræðum

Rannsóknin sýnir enn fremur að sé um alvarlegt ofbeldi að ræða er líklegt að það byrji þegar barnið er mjög ungt. Þá sýndu niðurstöður samhengi á milli ofbeldis gagnvart börnum og fjárhagserfiðleika foreldra, vímuefnanotkunar og andlegra erfiðleika.

Runi Børresen, lektor við háskólann í Suðaustur-Noregi, segir í samtali við NRK að taka verði niðurstöðurnar alvarlega. Nauðsynlegt sé að fjölga úrræðum fyrir börn sem búi við ofbeldi. Ann Karin Swang, formaður félags hjúkrunarfræðinga í Noregi, segir niðurstöðurnar ekki koma sérstaklega á óvart. Þær séu í samræmi við það sem hún hafi séð í starfi sínu sem skólahjúkrunarfræðingur í 20 ár. Hún segir að norskir grunnskólar uppfylli ekki lagaákvæði um fjölda hjúkrunarfræðinga fyrir tiltekinn fjölda nemenda. 

Inga Bejer Engh, umboðsmaður barna í Noregi, segir áhyggjuefni hversu mörg börn segi ekki frá því ofbeldi sem þau verði fyrir. „Það er virkilega alvarlegt að við sem samfélag skulum ekki ná til þessara barna,“ segir Engh í samtali við NRK.

mbl.is