Skiluðu skipunum klósettlausum

Herskipið Nikopol er hér dregið til hafnar í Ochakiv eftir …
Herskipið Nikopol er hér dregið til hafnar í Ochakiv eftir að Rússar skiluðu skipunum á mánudag. AFP

Úkraínsk stjórnvöld hafa sakað rússnesk yfirvöld um að taka vopn og annan búnað, meðal annars klósettin, úr herskipum sem rússneski herinn hafði lagt hald á. Herinn lagði hald á skipin á Svartahafi í nóvember í fyrra og var þeim skilað á mánudag.

„[Rússar] tóku jafnvel ljóskúplana, innstungurnar og klósettskálarnar,“ hefur BBC eftir Ihor Vorochenki yfirmanni úkraínska sjóhersins.

Rússneska leyniþjónustan FSB fullyrðir hins vegar að skipin hafi verið í „venjulegu ásigkomulagi“ þegar þegar þeim var skilað og með „pípulagnirnar í lagi“.

Úkraínsku sjóliðarnir 24 sem voru um borð í skipunum þegar þau voru tekin fengu að snúa aftur til Úkraínu í september sem hluti af fangaskiptum ríkjanna, en skipunum sjálfum var ekki skilað fyrr en nú.

Volodimír Zelenskí forseti Úkraínu skoðaði herskipin tvö, Berdyansk og Nikopol, og dráttarbátinn Yana Kapa í gær í höfninni í Ochakiv. Rússneska Tass-fréttastofan segir Zelenskí í kjölfarið hafa sagt fréttamönnum að það vantaði hluta búnaðar skipanna.

„Við aðmírállinn ræddum saman og ekki má greina frá öllu, en það vantar hluta vopnabúnaðarins,“ sagði Zelenskí. „Ég tók eftir ástandinu og það mun fara fram rannsókn. Við munum örugglega hafa samband við Rússa svo þeir skili öllu sem var þar.

FSB segir hins vegar engar kvartanir hafa borist þegar skipin voru afhent. Skjöl vegna þess hafi verið undirrituð og ástand skipanna samþykkt.

„Hafi Úkraínumönnum [...] tekist við flutninginn að koma pípulögnunum í óviðunandi horf er það vandamál Úkraínu,“ sagði í yfirlýsingu FSB.

Rússneski fréttamaðurinn Alexander Kots birti skömmu síðar myndband á Twitter með orðunum: „Aha! Og klósettið er á sínum stað.“ Er myndbandsupptaka sögð vera úr einu skipana og sýnir klósett á sínum stað, en BBC segir hins vegar óvíst hvar myndskeiðið hafi verið tekið.

mbl.is