Fjarlægðu 7,4 kg nýra úr manni

Læknarnir á Sir Ganga Ram sjúkrahúsinu í Delí með nýrað …
Læknarnir á Sir Ganga Ram sjúkrahúsinu í Delí með nýrað sem vóg 7,4 kg. AFP

Skurðlæknar á Indlandi hafa fjarlægt nýra á stærð við keilukúlu úr manni með lífshættulegan erfðasjúkdóm.

AFP-fréttaveitan greinir frá þessu og segir nýrað, sem vó heil 7,4 kg vera það stærsta sem fjarlægt hefur verið með skurðaðgerð.

„Þetta var risastór klumpur sem tók yfir hálfann kviðinn á honum. Við vissum að þetta væri stórt nýra, en datt ekki í hug að það yrði svona þungt,“ hefur AFP eftir Sachin Kathuria, einum skurðlæknanna.

Þess má geta að venjulegt nýra vegur á bilinu 120-150 grömm og er um 12 sentímetrar að lengd. Nýra sjúklingsins, sem er á sextugsaldri, var hins vegar 45 sentímetra langt og vó líkt og áður sagði 7,4 kg.

Erfðasjúkdómurinn sem maðurinn er með veldur því að blöðrur fullar vökva vaxa á nýrum hans og ákváðu læknar að skera hann upp þegar þeir urðu varir við innri blæðingu og sýkingu. Manninum heilsast nú vel að sögn læknanna og er á biðlista eftir gjafanýra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert