Veiðar við Bretland skilyrði fyrir fríverslun

AFP

Evrópusambandið hefur í hyggju að krefjast áframhaldandi aðgangs að breskum fiskimiðum strax eftir að Bretland yfirgefur sambandið. Verður slíkur aðgangur settur sem skilyrði fyrir fyrirhuguðum fríverslunarsamningi á milli Breta og sambandsins.

Til stendur að Bretland yfirgefi Evrópusambandið í síðasta lagi 31. janúar eftir að útgöngunni var frestað í síðasta mánuði en fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að sambandið ætli að setja kröfu sína formlega fram 1. febrúar eða skömmu eftir það. Þar segir að ríki innan Evrópusambandsins, eins og Frakkland, Danmörk, Spánn, Belgía og Holland, vilji óbreytt aðgengi að breskum miðum.

Fyrirætlun Evrópusambandsins byggir á því að Íhaldsflokkur Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fái meirihluta í neðri deild breska þingsins eftir þingkosningarnar í Bretlandi 12. desember og hann verði áfram forsætisráðherra.

mbl.is