Dramatísk nótt í Valetta

AFP

Forsætisráðherra Möltu, Joseph Muscat, greindi frá því í nótt að hann myndi sitja í stól forsætisráðherra þangað til rannsókn á morðinu á Daphne Caruana Galizia lýkur. Hann ræddi við blaðamenn að lokum löngum ríkisstjórnarfundi og lýsa alþjóðlegir fjölmiðlar ástandinu sem dramatískri nótt í Valetta.

Muscat hafði kallað ráðherra á sinn fund í forsætisráðuneytinu í höfuðborg Möltu, Valetta, í gærkvöldi þar sem ákveðið yrði hvort mælt yrði með því við forseta landsins að kaupsýslumanninum Yorgen Fenech yrði veitt sakaruppgjöf. Hann var handtekinn í síðustu viku er hann reyndi að flýja land á snekkju sinni. Fenech er grunaður um að hafa staðið á bak við morðið á blaðakonunni Daphne Caruana Galizia í október 2017.

Sakaruppgjöf hafnað

AFP

Hann er í haldi lögreglu og hafði óskað eftir því að forsetinn myndi veita honum sakaruppgjöf gegn því að veita upplýsingar um málið. Muscat tilkynnti síðan í nótt að beiðni Fenech hefði verið hafnað. „Ég lét lokaákvörðunina í hendur starfssystkina minna sem ákváðu að þetta væri ekki hæft til veitingar sakaruppgjafar,“ sagði hann á blaðamannafundinum.

Lögreglan á Möltu greindi frá því í gærkvöldi að einn helsti aðstoðarmaður Muscats, ráðuneyt­is­stjóri for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins, Keith Schembri, sem var handtekinn á mánudagskvöldið, hefði  verið látinn laus og ekki væri talið að hann tengdist morðinu. 

Mikil reiði greip um sig meðal almennings þegar þetta kom fram en fjölmenni var við forsætisráðuneytið í gærkvöldi. Mótmælt hefur verið við þinghúsið og ráðuneyti í Valetta undanfarna daga og er mikil reiði meðal almennings yfir tómlæti stjórnmálamanna undanfarin ár. 

Frétt Guardian

Frétt Reuters

Líf blaðakonu metið á 20 milljónir króna

Car­u­ana Galizia var afar vin­sæl og þekkt fyr­ir störf sín, bæði sem blaðamaður og blogg­ari og oft nefnd „einn­ar konu Wiki­leaks“. 

Hún hafði sakað Schembri og Mizzi um aðild að spill­ing­ar­mál­um en þeir neituðu ásök­un­um henn­ar. Eins hafði hún greint frá heim­sókn Car­dona í þýskt vænd­is­hús á meðan hann var í op­in­ber­um er­inda­gjörðum í Þýskalandi. Hann hafði höfðað skaðabóta­mál gegn henni skömmu áður en hún lést í bíl­sprengju­árás.

Stór hluti af vinnu Car­u­ana Galizia tengd­ist Panama-skjöl­un­um svo­nefndu. Þar var upp­lýst um spill­ingu í æðstu lög­um Möltu og tengsl stjórn­mála­manna við kaup­sýslu­menn. Þar á meðal fyr­ir­tæki sem var skráð í Dubai, 17 Black. Meðal gagna í Panama-skjöl­un­um voru upp­lýs­ing­ar um að fyr­ir­tæki sem voru í eigu Schembri og Mizzi fengu greiðslur frá 17 Black en síðar kom í ljós að það fyr­ir­tæki var í eigu Fenech. Hann hef­ur meðal ann­ars fjár­fest í orku­geir­an­um og ferðaþjón­ustu. 

Keith Schembri hefur verið látinn laus úr haldi og er …
Keith Schembri hefur verið látinn laus úr haldi og er ekki lengur með stöðu grunaðs manns. AFP

Vince Muscat, einn þeirra þriggja sem voru handteknir fyrir að hafa framið morðið, segir að hann hafi skutlað félaga sínum, Alfred Degiorgio, á fund á kaffihúsi í útjaðri Valetta sumarið 2017. Hann þurfti ekki að bíða lengi eftir Degiorgio sem kom aftur út í bíl og sagði  að þeir væru komnir með samning: Að drepa helsta blaðamann Möltu, Daphne Caruana Galizia.

Bílsprengja grandaði blaðakonunni 16. október það sama ár. Reuters-fréttastofan birti í gær upplýsingar um samsærið og að þeir hefðu fengið greiddar 150 þúsund evrur, rúmar 20 milljónir, fyrir. Muscat greindi frá þessu við lögreglu í apríl 2018 í þeirri von að fá sakaruppgjöf. Reuters-fréttastofan hefur haft upplýsingarnar undir höndum síðan í fyrra en ekki birt þær fyrr en núna til að skaða ekki rannsókn málsins. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert