Stálu 20 tonnum af súkkulaði

AFP

Lögreglan í Austurríki greindi frá því fyrir helgi að leit stæði yfir að flutningabifreið sem stolið var en verið var að flytja 20 tonn af súkkulaði í henni.

Fram kemur í frétt AFP að súkkulaðið sé í eigu fyrirtækisins Milka og að verðmæti þess sé 50 þúsund evrur eða rúmar 6,7 milljónir króna.

Súkkulaðinu var komið fyrir í bifreiðinni í síðustu viku í bænum Bludenz í vesturhluta landsins. Hins vegar kom síðan í ljós að stolnar númeraplötur voru á bifreiðinni og hefur ekkert spurst til bifreiðarinnar, ökumannsins né súkkulaðisins síðan.

Austurríska fyrirtækið sem tók flutninginn að sér fékk ungverskt fyrirtæki til þess að sjá um það sem aftur fól tékkneskum samstarfsaðila verkefnið. Ökumaður sem sagðist vinna fyrir tékkneska fyrirtækið sótti súkkulaðið og framvísaði til þess fölskum gögnum.

mbl.is