„Blaðra gæti drepið mig“

Liz Knight er með bráðaofnæmi fyrir latexi. Ef blaðra springur …
Liz Knight er með bráðaofnæmi fyrir latexi. Ef blaðra springur er hún í bráðri lífshættu. Ljósmynd/BBC/Twitter

Blöðrur eru alla jafna tákn um gleði, fögnuð og jafnvel eftirvæntingu. Það er hins vegar ekki tilfellið hjá Liz Knight. Mestallt sitt líf hefur hún forðast blöðrur eins og heitan eldinn. Ef hún kemst í tæri við blöðru gæti hún nefnilega kostað hana lífið. Liz er með bráðaofnæmi fyrir latexi. 

Sem barn var Liz greind með ofnæmi fyrir ryki, dýrahárum og fjöðrum. Við 12 ára aldur kom í ljós að hún er einnig með ofnæmi fyrir mannshári. Liz var með sítt ljóst hár og neyddist til að láta klippa það stutt til að koma í veg fyrir ofnæmisviðbrögð. 

Ofnæmið hefur haft mikil áhrif á líf Liz nær alla tíð. „Við fórum í heimsókn til frænku minnar þegar ég var fjögurra ára. Hún átti gára — allir áttu svoleiðis fugla á 7. og 8. áratugnum að því er virðist — og fjaðrirnar fóru mjög illa í mig,“ segir Liz í ítarlegu viðtali á BBC

„Ég man að við lögðum í innkeyrslunni, foreldrar mínir fóru inn ásamt tveimur systrum mínum, en ég gat ekki farið inn. Vegna gárans varð ég að bíða í bílnum. Mér fannst ég vera utanveltu — ég gat ekki gert það sem eðlilegt fólk gerði.“

Liz er með ofnæmi fyrir ryki, dýrahárum og fjöðrum. Þegar …
Liz er með ofnæmi fyrir ryki, dýrahárum og fjöðrum. Þegar hún var 12 ára greindist hún með ofnæmi fyirr mannshári og síða ljósa hárið varð að víkja fyrir snöggklipptum drengjakolli. Skjáskot/BBC

Ofnæmisviðbrögðin lýsa sér einna helst í formi útbrota víða á líkamanum, einna helst í andliti. Í verstu tilfellunum breytast útbrotin í exem og þegar Liz var á þrítugsaldri varð exemið svo slæmt að Liz fékk blóðeitrun sem var svo alvarleg að hún þurfti að dvelja á spítala vikum saman. 

Latex-ofnæmið uppgötvaðist hins vegar ekki fyrr en á tíunda áratug síðustu aldar. „Ein dætra minna rétti mér handfylli af þykkum helíumblöðrum og bað mig um að halda á þeim á meðan hún sinnti öðru. Ég hlýt að hafa snert á mér andlitið eftir að ég hélt á þeim því ég stokkbólgnaði.“

Líður eins og fanga á eigin heimili

Liz, sem er 56 ára, telur að hún hafi þróað með sér latex-ofnæmið vegna fjölda læknisheimsókna þar sem viðkvæm húð hennar komst í snertingu við lækna í latex-hönskum. Ofnæmið hefur haft margvísleg áhrif á daglegt líf hennar. Liz getur ekki lesið dagblöð þar sem blekið inniheldur latex. Það sama á við takkana á fjarstýringunum á heimilinu og hefur Liz brugðið á það ráð setja umbúðafilmu yfir fjarstýringarnar svo hún geti horft á sjónvarpið og skipt um stöðvar án vandkvæða. Það sama á við handfangið á eldhúshnífnum, blandarann og hárblásarann. 

Þegar vegavinna stendur yfir í nágrenni heimilis hennar þarf hún að loka öllum gluggum þar sem latex er að finna á yfirborði veganna. Hún segir að henni líði oft eins og fanga á eigin heimili.  „Mér finnst ég oft vera í sjálfheldu. Stundum fer ég ekki út vikum saman, bara af því að þá er ég örugg.“

Liz hefur grunað í nokkur ár að latex-ofnæmið væri að stigmagnast. Það reyndist rétt þegar Liz fór inn í verslun ásamt eiginmanni sínum veturinn 2015 og varir hennar byrjuðu skyndilega að bólgna. Við nánari athugun kom í ljós að sex blöðrur voru bundnar við hillurekka aftast í versluninni. Ef blaðra hefur verið í rýminu síðustu 48 klukkustundir kallar það fram ofnæmisviðbrögð hjá Liz, sérstaklega ef blaðra hefur sprungið og latex-agnir komast í andrúmsloftið. 

Um 5% Breta eru með ofnæmi fyrir latexi en ofnæmisviðbrögð skiptast í tvo flokka. Í fyrsta lagi er snertióþol sem lýsir sér með útbrotum, roða og kláða sem getur komið fram allt að 12 — 36 klukkustundum eftir snertingu við latex. Snertióþol er algengast á höndum en getur líka komið fram annars staðar á líkamanum. Þessi gerð ofnæmisviðbragða getur valdið miklum óþægindum en er ekki lífshættuleg. Í öðru lagi er bráðaofnæmi, líkt og Liz er með. Það stafar af myndun mótefna gegn latexi. Bráðaofnæmi fyrir latex er mun alvarlegri sjúkdómur en snertiofnæmið og getur verið lífshættulegt. „Blaðra gæti drepið mig,“ segir Liz, en hún náði að yfirgefa verslunina í tæka tíð og koma í veg fyrir svæsnari viðbrögð. 

Þurfti að hætta í vinnunni og ræktinni

Latex-ofnæmið hefur ekki einungis haft áhrif á líkamlega heilsu Liz heldur einnig andlega. Félagslega tengslanetið hennar hefur minnkað til muna og hún þurfti að hætta að mæta í leikfimitíma þar sem latex er að finna í flestum æfingadýnum. 

Hún hefur einnig neyðst til segja upp starfi sínu í apóteki þar sem hún finnur oft fyrir ofnæmisáhrifum og þjáist hún af samviskubiti þar sem henni finnst hún ekki geta aflað tekna fyrir heimilið. 

Þrátt fyrir mótlætið er Liz staðráðin í að láta latexofnæmið ekki taka yfir líf hennar. „Ég get gengið, ég get gert og séð hluti og ég verð að vera þakklát fyrir allt sem ég á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert