Hvort verður það Ali eða Boris?

Ali Milani, frambjóðandi Verkamannaflokksins í Uxbridge og South Ruislip.
Ali Milani, frambjóðandi Verkamannaflokksins í Uxbridge og South Ruislip. AFP

Ali Milani talaði ekki stakt orð í ensku þegar hann kom til Bretlands frá Íran fimm ára að aldri. Nú 20 árum síðar er hann talinn helsta ógn forsætisráðherra landsins, Boris Johnson, í komandi þingkosningum.

Kosn­inga­kerfi Bret­lands bygg­ist upp á ein­menn­ings­kjör­dæm­um og fyr­ir vikið eru kjör­dæm­in í land­inu jafn­mörg og þing­sæt­in eða 650.

Milani er í framboði fyrir Verkamannaflokkinn í Uxbridge og South Ruislip þar sem Johnson er einnig í framboði. Ungum vonarstjörnum í stjórnmálum er oft gefinn möguleiki á að sanna sig í umdæmum sem ekki þykja miklar líkur á að þær fari með sigur af hólmi. En Milani ætlar sér svo sannarlega ekki að verða einn af þeim. Ólíklegt er samt að honum verði að ósk sinni.

Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson.
Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson. AFP

Formaður Íhaldsflokksins, Boris Johnson, er með naumt forskot á Milani og hefur ekki verið svo mjótt á munum fyrir sitjandi forsætisráðherra í Bretlandi frá árinu 1924.

Milani, sem kynnir sig sem frambjóðanda af staðnum, hefur unnið þrotlaust að því að kynna sig fyrir kjósendum að undanförnu. Frambjóðendurnir þykja afar ólíkir. Milani, sem er bæði ungur og kemur frá Íran, er alinn upp af einstæðri móður og bjó í félagslegri íbúð í skugga  Wembley-leikvangsins í norðvesturhluta London.

Johnson, sem er 30 árum eldri, er fyrrverandi borgarstjóri í London og utanríkisráðherra sem lagði stund á nám í þeim sögufræga skóla Eton. Hann nam síðan grísku og latínu í Oxford-háskóla.

Að sögn systur Johnson hefur hann allt frá barnæsku átt sér stóra drauma um að verða „konungur heimsins“.

Milani útskrifaðist úr stjórnmálafræði frá Brunel-háskólanum í Uxbridge. Hann er múslimi og fyrrverandi stjórnarmaður í landssamtökum námsmanna í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert