Verkföll hleypa jólahaldi í uppnám

Fjöldi fólks safnaðist saman í Nantes í gær til að …
Fjöldi fólks safnaðist saman í Nantes í gær til að mótmæla fyrirhuguðum áformum stjórnvalda. AFP

Ekki sér fyrir endann á umfangsmiklum verkföllum sem hafa lamað franskt samfélag síðustu daga. Almenningssamgöngur lágu niðri í dag, níunda daginn í röð, sem og skólahald, og hafa háskólar þurft að fresta jólaprófum fram í janúar. Forsvarsmenn verkalýðsfélaga hafa lýst því yfir að verkföllin muni halda áfram fram yfir jólahátíðina nema ríkisstjórn Emmanuels Macrons láti af áformum um breytingar á eftirlaunalögum.

Vonast þeir til að endurtaka leikinn frá 1995 er Jacques Chirac, þáverandi forseti, lúffaði fyrir mótmælendum og afturkallaði frumvarp um álíka breytingar á eftirlaunalögum eftir umfangsmiklar verkfallsaðgerðir á aðventu.

Breytingunum, sem kynntar voru í síðasta mánuði, er ætlað að samræma eftirlaunakerfi landsins og afnema ýmis sérstök fríðindi opinberra starfsmanna. Þar með talið er réttur opinberra starfsmanna til að fara á eftirlaun 62 ára. Verði tillögurnar samþykktar munu opinberir starfsmenn þurfa að bíða til 64 ára aldurs til að fá full eftirlaun, og hafa þau áform lagst illa í margan opinberan starfsmanninn.

Macron forseti hefur lýst breytingunum sem „sögulegum umbótum“, sem ætlað sé að breyta frönsku þjóðfélagi í velferðarsamfélag 21. aldar og koma í veg fyrir 17 milljarða evra skuldasöfnun sem fyrirséð er í frönsku lífeyriskerfi til ársins 2025, verði ekkert að gert.

Samkvæmt gögnum frá OECD fara Frakkar mun fyrr á eftirlaun en flestar vestrænar þjóðir, en meðalaldur Frakka við upphaf eftirlaunatöku er rétt rúmlega 60 ár. Ef marka má niðurstöður skoðanakönnunar Elabe-stofnunarinnar í gær er franska þjóðin klofin í afstöðu sinni til breytinganna, en 50 prósent aðspurðra sögðust styðja áformin en 49 prósent ekki.

Lestarsamgöngur hafa nær alfarið legið niðri í Frakklandi síðustu daga.
Lestarsamgöngur hafa nær alfarið legið niðri í Frakklandi síðustu daga. AFP
mbl.is