Millifærði 1.300 milljarða á 10 árum

Purdue Pharma.
Purdue Pharma. AFP

Dómsskjöl sýna fram á að hin vellauðuga Sackler-fjölskylda hafi millifært um 10,7 milljarða dala, sem jafngildir um 1.300 milljörðum kr., frá bandaríska lyfjafyrirtækinu Purdue Pharma, sem er í eigu fjölskyldunnar, frá árinu 2008 til 2017, eða eftir að fyrirtækið viðurkenndi árið 2007 að hafa staðið á bak við villandi markaðssetningu á ópíóðalyfinu OxyContin. 

Greint var frá því í haust að sátt hefði náðst í máli Pur­due Pharma um millj­arða doll­ara bæt­ur til þeirra þúsunda kröfu­hafa sem hafa höfðað mál gegn fyr­ir­tæk­inu. Pur­due Pharma hef­ur verið sakað um að kynda und­ir ópíóðafar­aldr­in­um í Banda­ríkj­un­um með fram­leiðslu og markaðssetn­ingu á ópíóðaverkjalyfj­um á borð við OxyCont­in. 

Fram kemur á vef BBC, að fjölskyldan hafi millifært um 1,3 milljarða dala frá Purdue Pharma á milli 1995 til 2007. Frá því að fyrirtækið viðurkenndi árið 2007 að hafa afvegaleitt almenning og gert lítið úr hættunni á því að nota jafn ávanabindandi lyf eins og OxyContin, sem er mjög sterkt verkjalyf, millifærði fjölskyldan tífalt hærri upphæð þegar rannsókn á ópíóðafaraldrinum færðist í aukana. Fjölskyldan færði fjármunina yfir í ýmsa sjóði og eignarhaldsfélög, að því er New York Times greinir frá. 

Lyfjafyrirtækið fór fram á greiðslustöðvun í september en við það fóru mörgu þúsundir málsóknir á hendur Purdue Pharma í biðstöðu, en fyrirtækið stefnir að því að greiða um 10 milljarða dala í dómsátt. 

Lögmaður sem starfar fyrir Sackler-fjölskylduna segir í samtali við LA Times að skattur hafi verið greiddur af um helmingi fjárhæðarinnar og féð nýtt til að endurfjárfesta í fyrirtækjum sem verði síðan seld sem hluti af dómssáttinni. 

mbl.is