Miður sín yfir að hafa ekki getað bjargað fólkinu

Darryn Frost tókst ásamt öðrum borgara að stöðva árásarmanninn á …
Darryn Frost tókst ásamt öðrum borgara að stöðva árásarmanninn á London Bridge í lok nóvember. Ljósmynd/Twitter

Maður sem stöðvaði árásarmann á London-brú í lok nóvember segist vera miður sín yfir því að hafa ekki náð að bjarga tveimur sem létust í árásinni. 

Árás­in átti sér stað rétt fyr­ir klukk­an 14, föstudaginn 29. nóvember á Fis­hmon­g­ers' Hall sem stend­ur norður af London brúnni. Árás­ármaður­inn var 28 ára gam­all og dæmd­ur hryðju­verkamaður á reynslu­lausn. Hann var und­ir ra­f­rænu eft­ir­liti og hafði um sig ökkla­band þegar hann framdi ódæðið. 

Lög­regl­an skaut mann­inn til bana þegar hann gerði til­raun til að rísa á fætur eft­ir að Darryn Frost, 38 ára Lundúnabúi sem á ættir að rekja til Suður-Afríku, höfðu náð að yf­ir­buga hann. Kona og karl lét­ust í árás­inni, en þau unnu við að þjónusta fanga á reynslulausn. Þrír til viðbót­ar særðust, þar af eitt al­var­lega.

Jack Merritt, 25 ára, og Saskia Jones, 23 ára, létust …
Jack Merritt, 25 ára, og Saskia Jones, 23 ára, létust í árásinni á London Bridge í nóvember. AFP

Frost starfar í dómsmálaráðuneytinu og var einmitt á leið á fund fyrir afbrotamenn á reynslulausn þegar hann varð var við læti á brúnni. Frost tókst ásamt öðrum manni, sem var vopnaður slökkviliðstæki, að stöðva árásarmanninn sem var vopnaður tveimur hnífum. Lög­regl­an taldi hann íklædd­an sprengju­vesti en það reynd­ist eft­ir­lík­ing. Frost greip náhvalstönn af vegg Fis­hmon­g­ers' Hall og hljóp því næst í átt að árásarmanninum. Á þeim tímapunkti var annar borgari að reyna að yfirbuga árásarmanninn með stól. 

Á myndskeiði má sjá þegar Frost nær árásarmanninum niður í jörðina. „Hann var með hnífa í báðum höndum. Hann sneri sér að mér og talaði við mig og gaf í skyn að hann væri með sprengjubelti um sig miðjan,“ segir Frost. Síðar kom í ljós að það reyndist vera eftirlíking. 

Frost lýsir því hvernig hann hélt árásarmanninum niðri með því að halda fast um úlnliðina á honum til að koma í veg fyrir að hann gæti beitt hnífunum, skaðað fólk eða virkjað sprengjubeltið. Lögregla kom að Frost stuttu síðar og tók við árásarmanninum, sem var skotinn til bana skömmu síðar. 

Frost hefur kynnt sér sögu fólksins sem lést í árásinni og segist sannfærður um að þau hafi staðið fyrir öllu því góða í heiminum. Hann segist vera miður sín yfir því að hafa ekki getað bjargað þeim. Frost segir upplifunina hafa verið hræðilega en ljósi punkturinn sé þó sá að almennir borgarar hafi sameinast gegn hryðjuverkum þennan dag. 

„Ég vona að það sem ég gerði í þessum hræðilegu aðstæðum verði nýtt til góðs.“

Frétt BBC

mbl.is