Lýðveldissinni endurkjörinn forseti Taívan

Tsai Ing-wen, til hægri, ásamt varaforseta sínum William Lai.
Tsai Ing-wen, til hægri, ásamt varaforseta sínum William Lai. AFP

Tsai Ing-wen, forseti Taívan, var endurkjörin í kosningum í landinu dag. Hlaut hún örugga kosningu, um 57% atkvæða gegn 39% helsta keppinautar síns, Han Kuo-yu, sem hafði lagt áherslu á nánara samstarf stjórnvalda í Taívan við Kínverja.

Úrslitin þykja athyglisverð fyrir þær sakir að Framsækni lýðræðisflokkurinn, flokkur Tsai forseta, tapaði stórt í þingkosningum fyrir tveimur árum. Flokkurinn hefur síðan sótt í sig veðrið og segja stjórnmálaskýrendur að bætt staða hagkerfisins og mistök stjórnarandstöðunnar skýri það að hluta, en ekki síður fjöldamótmælin í Hong Kong, sem hafi sýnt Taívönum hvernig umhorfs gæti verið í ríkinu undir kínverskri stjórn.

Aukin ógn Kínverja virðist hafa hjálpað Tsai, sem leggst gegn sameiningu ríkisins við meginland Kína. Í aðdraganda kosninganna sigldu Kínverjar nýju herskipi sínu í tvígang gegnum Taívansund, sem liggur milli meginlandsins og eyjunnar Taívan. Hefur Xi Jinping, forseti Kína, ekki viljað útiloka að ríkið grípi til vopna til að ná Taívan undir sitt vald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert