Breski fáninn fer á safn

AFP

Breski fáninn, sem flaggað hefur verið til þessa fyrir utan þinghús Evrópusambandsins í Brussel, verður tekinn niður 31. janúar þegar Bretland gengur formlega úr sambandinu og framvegis varðveittur á safni um sögu þess í Brussel.

Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph greinir frá því að upplýsingum um fyrirhugaða athöfn á útgöngudaginn hafi verið lekið til fjölmiðla. Breska fánanum hefur verið flaggað fyrir utan þinghúsið ásamt fánum annarra ríkja Evrópusambandsins.

Bretar gengu í Efnahagsbandalag Evrópu, sem síðar varð að Evrópusambandinu, árið 1973. Breskir kjósendur samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2016 að yfirgefa sambandið. Sem fyrr segir er gert ráð fyrir útgöngu Bretlands 31. janúar.

mbl.is