Reynt að múta rannsakanda í Namibíu

Paulus Noa, framkvæmdastjóri spillingarlögreglunnar namibísku, vildi ekki gefa upp fyrir …
Paulus Noa, framkvæmdastjóri spillingarlögreglunnar namibísku, vildi ekki gefa upp fyrir hvern sexmenninganna sá sem reyndi að múta rannsóknarlögreglumanninum hefði verið að vinna. Skjáskot af YouTube

Spillingarlögreglan í Namibíu hefur handtekið einstakling sem sagður er hafa reynt að hjálpa einum af sexmenningunum sem sitja í gæsluvarðhaldi vegna Samherjaskjalanna fyrir að hindra framgang réttvísinnar með því að múta einum rannsóknarlögreglumanni og fá hann til þess að fjarlægja upplýsingar um ákveðin greiðslukort úr rannsóknargögnum spillingarlögreglunnar.

Þetta staðfestir Paulus Noa, stjórnandi spillingarlögreglunnar, við namibíska fréttablaðið Informanté í dag. Munu rannsóknarlögreglumanninum hafa verið boðnar tvær milljónir namibískra dala, jafnvirði 17 milljóna íslenskra króna, fyrir að láta þetta gerast.

Noa segir við Informanté að ef rannsóknarlögreglumaðurinn hefði fjarlægt greiðslukortin úr málsgögnunum hefði sá sem á þau fengið aðgang að því fé sem er á viðhangandi bankareikningum.

Hann sagði að á þessu stigi málsins vildi spillingarlögreglan hvorki nafngreina þann sem handtekinn hefur verið, né upplýsa um hvern sexmenninganna sá handtekni var að vinna fyrir.

Þessu tengt rifjar Informanté upp í umfjöllun sinni að í byrjun desember hafi maður sem starfaði fyrir Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, verið handtekinn fyrir að fjarlægja gögn af heimili ráðherrans. Sú rannsókn er enn í gangi.

mbl.is