Ríkisstjórn Spánar lýsir yfir neyðarástandi

Ríkisstjórn Pedro Sanchez tók við 13. janúar og ætlar sér …
Ríkisstjórn Pedro Sanchez tók við 13. janúar og ætlar sér stóra hluti í loftslagsmálum. AFP

Ríkisstjórn Spánar hefur lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og heitið því að leggja fram drög að frumvarpi um orkuskipti innan 100 daga. 

Ríkisstjórnin, sem leidd er af forsætisráðherranum Pedro Sanchez, tók við stjórn Spánar 13. janúar síðastliðinn. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar nýju segir að áætlað sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með það að markmiði að Spánn verið kolefnishlutlaus árið 2050. Verður það helst gert með því að skipta yfir í endurnýjanlega orku.

Jafnframt ætlar ríkisstjórnin að uppfæra stefnu Spánar í loftslagsmálum og gengur jafnvel svo langt að lofa því að hliðsjón verði höfð af loftslagsmálum í öllum ákvörðunum innan allra ráðuneyta ríkisstjórnarinnar.

mbl.is