„Hann lagðist ofan á mig og nauðgaði mér“

Annabella Sciorra fyrir utan réttarsalinn í New York í dag.
Annabella Sciorra fyrir utan réttarsalinn í New York í dag. AFP

Bandaríska leikkonan Annabella Sciorra kom fyrir dóm í máli Harveys Weinsteins í New York í dag og sagði Weinstein hafa nauðgað sér á ofbeldisfullan hátt á heimili hennar fyrir 25 árum. Sciorra er best þekkt fyrir hlutverk í sjónvarpsþáttunum The Sopranos.

Kvikmyndaframleiðandinn Weinstein neitar sem kunnugt er öllum þeim sökum sem á hann hafa verið bornar, en Annabella Sciorra er raunar ekki ein þeirra kvenna sem hann er sakaður um að hafa brotið gegn í því máli sem nú er til meðferðar í New York.

Fram kemur í frétt BBC um réttarhöldin að Sciorra hafi verið kölluð til sem vitni ákæruvaldsins, til þess að sýna kviðdómnum fram á að Weinstein væri ofbeldismaður. Brotið sem hún sakar Weinstein um að hafa framið gegn sér er fyrnt samkvæmt lögum New York-ríkis.

Harvey Weinstein (t.v.) ásamt lögfræðingi sínum í dag.
Harvey Weinstein (t.v.) ásamt lögfræðingi sínum í dag. AFP

Hún steig fram með ásakanir á hendur Weinstein í blaðaviðtali vestanhafs árið 2017 og rifjaði þau atvik upp í réttarsalnum í dag. Samkvæmt frásögn BBC tók það auðsjáanlega mjög á leikkonuna, sem barðist við tárin er hún rifjaði upp ofbeldið sem hún varð fyrir af hálfu Weinsteins.

„Þetta er fyrir þig“

„Hann lagðist ofan á mig og nauðgaði mér,“ sagði Sciorra, en hún sagði Weinstein hafa haldið sér niðri með valdi á meðan svo hún gat ekki barist almennilega á móti þrátt fyrir að reyna það af öllum mætti.

Sciorra sagði að Weinstein hefði einnig þröngvað sér niður á hana og haft við hana munnmök gegn vilja hennar. Þá hafi hann sagt: „Þetta er fyrir þig“ er hann framdi þann verknað og lýsti Sciorra því að sér hefði þótt það svo ógeðslegt að líkami hennar hefði byrjað að hristast líkt og hún væri að fá flog.

Réttarhöldin í New York snúast um brot Weinsteins gegn tveimur konum, Jessicu Mann og Mimi Haleyi. Eiga brot Weinsteins að hafa átt sér stað árin 2013 og 2006. Búist er við að réttarhöldunum yfir kvikmyndamógúlnum fyrrverandi ljúki í byrjun marsmánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert