Óbærilegur hiti í Canberra

Slökkviliðsmenn að störfum í bænum Bumbalong sem er suður af …
Slökkviliðsmenn að störfum í bænum Bumbalong sem er suður af höfuðborginni Canberra í dag. AFP

Nýtt mánaðarlegt hitamet hefur verið sett í Canberra, höfuðborg Ástralíu, en hitinn fór upp í 42,7 gráður, en gamla metið fyrir febrúarmánuð, sem er frá árinu 1968, var 42,2 gráður. Búið er að lýsa yfir neyðarástandi á svæðinu þar sem gróðureldar nálgast nú borgina. 

Þetta er í fyrsta sinn í nærri tvo áratugi sem borgin lýsir yfir neyðarástandi, en það var gert í síðustu viku. Hitabylgja og gróðureldar ógna íbúum í úthverfum borgarinnar, að því er AFP-fréttastofan greinir frá. 

Slökkviliðsþyrla sést hér berjast við eldana.
Slökkviliðsþyrla sést hér berjast við eldana. AFP

Sé litið á þetta á ársgrundvelli var hitinn í dag sá þriðji hæsti frá því mælingar hófust. Veðurfræðingurinnn Etienne Kapikian, sem starfar hjá frönsku veðurstofunni, segir í færslu á Twitter, að sumarið 2019-2020 sé það heitasta í sögu Ástralíu. 

Lýst var yfir neyðarástandi í borginni á fimmtudag, en þetta er í fyrsta sinn sem það er gert á höfðuborgarsvæðinu frá árinu 2003. Þá brunnu hátt í 500 hús til grunna í miklum gróðureldum. 

Óttast er að eldar sem loga í Orroral-dalnum geti nálgast byggð, en nú þegar hafa um 18.000 hektarar orðið eldunum að bráð.

AFP

Áströlsk yfirvöld segja að hitinn og mikill þurrkur skapi kjöraðstæður fyrir eldana í Nýja-Suður Wales og í Viktoríuríki. Þar loga rúmlega 80 eldar. 

Í gær fór hitinn í Nýja-Suður Wales í 46,8 gráður. 

Veðurfræðingar spá stormi í kjölfar hitabylgjunnar og þá er von á úrkomu sem mun draga úr útbreiðslu eldanna, en sú hætta er einnig fyrir hendi að með vonskuveðri muni fylgja það mikið úrhelli að von sé á skyndiflóðum með tilheyrandi hættu og tjóni. 

Að minnsta kosti 33 hafa látist í Ástralíu frá því eldarnir brutust út í september. 

mbl.is