Loftslagsbreytingar hafa greinileg áhrif

Slökkviliðsmaður berst við skógarelda síðasta vetur.
Slökkviliðsmaður berst við skógarelda síðasta vetur. AFP

Loftslagsbreytingar höfðu greinileg áhrif á gróðureldana sem geisuðu í Ástralíu undir lok síðasta árs og fyrri hluta þessa árs. Þetta kemur fram í skýrslu sem fylkisyfirvöld í Nýja Suður-Wales birtu í morgun um eldana þar.

Eldar geisuðu samfleytt í Ástralíu um níu mánaða tímabil en ástandið var verst í Nýju Suður-Wales, þar sem 5,5 milljónir hektara lands brunnu. 

26 fórust í eldunum í fylkinu og 2.400 íbúðarhús urðu eldum að bráð.

Í skýrslunni segir að þrátt fyrir að loftslagsbreytingar skýri ekki allt sem gerðist hafi viðvaranir vísindamanna staðist.

Miklir þurrkar, stormar og lítill raki hafi gert það að verkum að erfiðara var að ráða niðurlögum eldanna. Alls kviknuðu um ellefu þúsund eldar í Nýju Suður-Wales. Af þeim kveiktu brennuvargar ellefu sinnum í en flestir hinna voru vegna eldingaveðurs. 

Bent er á að eldar á borð við þá sem geisuðu í Ástralíu síðasta vetur verði algengari í framtíðinni í takt við hækkandi hitastig og aðrar kjöraðstæður fyrir elda.

mbl.is