Neyðarástand í höfuðborg Ástralíu

Canberra er staðsett um miðja vegu á milli Sydney og …
Canberra er staðsett um miðja vegu á milli Sydney og Melbourne. Íbúar eru um 400 þúsund. AFP

Áströlsk yfirvöld hafa lýst yfir neyðarástandi á höfuðborgarsvæði landsins, þ.e. svæðinu í kringum Canberra, höfuðborg landsins, vegna skæðra skógarelda sem þar geisa, líkt og víðar í Ástralíu.

Greint er frá á BBC, en þar segir að eldarnir sem nú brenni í nágrenni Canberra séu þeir verstu í næstum tvo áratugi. Mestir eru eldarnir syðst á svæðinu, en þar spanna þeir 185 ferkílómetra svæði. Hefur íbúum í úthverfum höfuðborgarinnar verið sagt að vera á varðbergi og tilbúnir til að yfirgefa heimili sín með skömmum fyrirvara.

Canberra er staðsett um miðja vegu á milli Sydney og Melbourne. Íbúar eru um 400 þúsund.

Verstu eldar sem svæðið hefur upplifað voru árið 2003, en þá létust fjórir, 500 slösuðust og 470 heimili eyðilögðust.

Von er á áframhaldandi 40 stiga hita og hvassviðri og er hætta á enn meiri útbreiðslu eldanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert