Hljóp ofurmaraþon inni hjá sér í kórónufaraldri

Hér má sjá Pan hlaupa í kringum húsgögn heima hjá …
Hér má sjá Pan hlaupa í kringum húsgögn heima hjá sér. AFP

Kínverski hlauparinn Pan Shancu hljóp um 66 kílómetra heima hjá sér í tilraun til þess að halda sér í formi á meðan inniveran sem fylgir útbreiðslu kórónuveiru stendur yfir. 

Um 1.600 eru nú látnir vegna veirunnar en langflestir hafa látist í Kína. Stjónvöld hafa ákaft hvatt Kínverja til að stunda hreyfingu til þess að berjast við sjúkdóminn. 

Stór hluti Kínverja heldur sig að mestu innandyra þessa dagana og hefur gert svo í nokkrar vikur til að forðast frekari útbreiðslu veirunnar. Líkamsræktarstöðvar eru víðast hvar lokaðar en Kínverjar eru farnir að taka til sinna ráða til þess að halda sér í formi. 

Tæpra sjö klukkustunda hlaup

Dæmi eru um að fólk keppi í því hversu mörgum vatnsflöskum það geti lyft, hversu margar armbeygjur það geti tekið með börn sín á bakinu og hversu margar ferðir það geti hlaupið upp og niður stiga. 

Pan segist hafa hlaupið 66 kílómetra, því sem nemur ríflegu ofurmaraþoni, inni í lítilli íbúð sinni. Það tók hann sex klukkustundir og 41 mínútu að klára afrekið sem hann tók upp á myndband. 

Þar sést Pan hlaupa í kringum húsgögn í íbúð sinni og hefur myndbandið komist á flug í Kína.

„Mig svimaði svolítið til að byrja með en þú venst því að hlaupa í marga hringi,“ sagði Pan í samtali við fréttastofu AFP. 

„Hlaup er ákveðin fíkn. Ef þú ferð ekki að hlaupa í langan tíma þá fer þig að klæja í fæturna.“

Pan þurfti að sjálfsögðu að teygja vel á eftir þrekvirkið.
Pan þurfti að sjálfsögðu að teygja vel á eftir þrekvirkið. AFP

Hljóp 30 kílómetra inni á baði hjá sér

Ofurmaraþonið er þó ekki eina hlaupið sem Pan hefur skellt sér í innandyra síðan kórónaveiran braust út. Hann hljóp 30 kílómetra inni á baðherbergi hjá sér og tók hlaupið upp á myndband í þeim tilgangi að blása öðrum sem fastir eru innandyra hlaupaanda í brjóst. 

„Ég er í spjallhóp á netinu þar sem fólk ræðir hvað það langar mest  að gera þegar þessum faraldri er lokið. Sumir segja að þá langi að halda veislu en mig langar bara að hlaupa 100 kílómetra utan dyra,“ sagði Pan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert