Forða sér frá borði

AFP

Hundruð yfirgáfu skemmtiferðaskipið Diamond Princess í Japan í dag en skipið hefur verið í sóttkví við Yokohama frá 3. febrúar eftir að fyrrverandi farþegi um borð greindist smitaður af kórónuveirunni í Hong Kong. Hafa farþegar og áhöfn því verið í sóttkví í tvær vikur um borð. 

Alls hafa 74.185 smit COVID-19-veirunnar verið staðfest á meginlandi Kína og um 700 annars staðar í heiminum. Í dag greindu yfirvöld í Hong Kong frá því að sjötugur karl, sem var með undirliggjandi sjúkdóma, hefði látist úr veirunni og er þetta annað dauðsfallið þar. Einn hefur látist í Frakklandi, Japan, Filippseyjum og Taívan. Langflestir þeirra sem hafa látist úr kórónuveirunni hafa glímt við aðra sjúkdóma og verið aldraðir. 

Fjölmiðlar fylgdust grannt með fólki yfirgefa Diamond Princess í dag og segir fréttamaður BBC að fólk hafi flýtt sér í leigubíla og rútur sem biðu þess við höfnina í Yokohama.

Farþegar forða sér frá borði eftir tveggja vikna sóttkví um …
Farþegar forða sér frá borði eftir tveggja vikna sóttkví um borð í Diamond Princess. AFP

Alls voru 3.711 um borð í skemmtiferðaskipinu þegar það kom til Japans og var sett í sóttkví. Af þeim voru 2.666 farþegar en aðrir voru í áhöfn þess. Fólkinu um borð hefur hins vegar fækkað dag frá degi þar sem þeir sem hafa greinst smitaðir hafa verið fluttir á sjúkrahús.

Fólkið um borð er af 56 þjóðernum en um helmingur farþega er frá Japan. Hundruð í áhöfninni eru frá Filippseyjum auk þess sem hundruð Bandaríkjamanna voru um borð. Hluti þeirra fór frá borði áður en sóttkvínni lauk.

Í sóttkvínni var farþegum gert að halda sig inni í káetum sínum með þeirri undantekningu að þeir máttu fara stutta stund upp á þilfar með því skilyrði að klæðast hönskum og bera grímur. Jafnframt var þeim meinað að nálgast aðra farþega. Eftir rúma viku í sóttkví ákváðu japönsk yfirvöld að heimila farþegum, sem eru yfir áttrætt, með heilsufarsvanda eða voru í gluggalausum káetum, að ljúka sóttkví í landi. Skilyrði var sett um að niðurstaða úr rannsókn á því hvort viðkomandi væri smitaður hefði verið neikvæð. Aðeins 11 þeirra sem stóðust skilyrðin ákváðu að þiggja boðið.

AFP

Nokkrum dögum áður en sóttkví lauk ákváðu bandarísk yfirvöld að sækja bandaríska ríkisborgara um borð og senda þá í 14 daga sóttkví til viðbótar þegar þeir kæmu til heimalandsins. Alls var flogið heim með 328 Bandaríkjamenn en einhverjir ákváðu að dvelja frekar um borð áfram þangað til í dag. 

Gert er ráð fyrir að 500 yfirgefi Diamond Princess í dag. Engar hömlur verða settar á ferðir þeirra enda ósmitaðir að lokinni tveggja vikna sóttkví.

Alls voru 1.045 í áhöfn skemmtiferðaskipsins við komuna til Japan. Einhverjir þeirra hafa greinst smitaðir og því verið fluttir frá borði. Aðrir verða að fara í nýja tveggja vikna sóttkví en hún hefst ekki fyrr en allir farþegarnir eru farnir frá borði.

Allar reglur þverbrotnar

Japanskur smitsjúkdómasérfræðingur segir að viðbrögð yfirvalda þar í landi hafi verið gjörsamlega fálmkennd og brotið allar reglur sem gilda um einangrun. Myndskeið sem Kentaro Iwata, prófessor við háskólann í Kobe, tók upp hafa vakið mikla athygli á sama tíma og farþegar fóru frá borði í dag. Enda afar sjaldgæft að sérfræðingar þori að gagnrýna yfirvöld með þessum hætti í Japan. 

AFP

Iwata segir í myndskeiðunum að öll skilyrði sem sett eru fyrir sóttkví hafi verið brotin um borð í skemmtiferðaskipinu. Hann segir að honum hafi brugðið mjög þegar hann fór í stutta heimsókn um borð í gær. Þess vegna hafi hann farið í sjálfskipaða sóttkví við komuna í land í því skyni að koma í veg fyrir að hann myndi smita fjölskyldu sína. Engin aðgreining hafi verið á milli svæða um borð. Það er græna svæðisins þar sem engin smit höfðu greinst og þess rauða þar sem talið var að smit væri um að ræða. 

„Ég tók þátt í baráttunni við ebólu í Afríku. Ég var í öðrum löndum að taka þátt í baráttunni gegn kólerufaraldrinum. Ég var í Kína árið 2003 til að takast á við SARS. Ég hef aldrei þurft að glíma við óttann um að smitast sjálfur á þessum stöðum,“ segir hann í myndskeiði á ensku. En um borð í Diamond Princess varð ég skelfingu lostinn því þar var gjörsamlega vonlaust að segja til um hvar veiruna væri að finna, bætir hann við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert