Hatursorðræða ekki liðin

mbl.is

Vegna aukinnar hættu af hálfu öfgahreyfinga þjóðernissinna og hótana í garð stjórnmálamanna hafa þýsk yfirvöld ákveðið að herða löggjöfina varðandi hatursorðræðu á netinu. Um leið verða gerðar auknar kröfur til samfélagsmiðla um að fjarlægja óæskilegt efni.

Ríkisstjórnin mun væntanlega kynna aðgerðirnar í dag en á föstudag voru tólf menn handteknir í samræmdum aðgerðum þýsku lögreglunnar víða um land. Þeir höfðu lagt á ráðin um að gera árásir á sex moskur á þeim tíma sem föstudagsbænir stæðu yfir. Mennirnir undirbjuggu árásirnar, sem áttu að vera sambærilegar þeim sem ástralskur öfgasinni gerði í Christchurch í fyrra, á spjallþráðum á samfélagsmiðlum. Í árásinni í Christchurch dóu yfir 50 manns.

Í framtíðinni verða þeir sem eru með hótanir eða dreifa hatri á netinu saksóttir og ákærðir fyrir mun alvarlegri brot en áður. Jafnframt verður skilvirkni í slíkum málum aukin umtalsvert segir dómsmálaráðherra Þýskalands, Christine Lambrecht.

Samfélagsmiðlar eins og Facebook og Twitter þurfa samkvæmt nýju lögunum að bregðast hraðar við og fjarlægja slíkt efni. Eins að tilkynna til þýsku lögreglunnar um slíkt efni þannig að lögreglan geti komið upplýsingunum áfram til saksóknara. Þeir samfélagsmiðlar sem neita að taka þátt í þessu samstarfi eiga yfir höfði sér allt að 50 milljóna evra sekt. Það svarar til 6,9 milljarða króna.

Efni sem fellur undir lögin er áróður nýnasista og annarra öfgahópa. Eins áætlanir um að fremja hryðjuverkaárásir. Aftur á móti eru önnur lög og mun víðtækari sem gilda um þá sem fremja annað saknæmt athæfi, svo sem líflátshótanir eða nauðgunarhótanir. Sem og gagnvart þeim sem dreifa barnaníði á netinu. 

„Hatursglæpir munu loksins enda þar sem þeir eiga heima: fyrir dómi,“ segir innanríkisráðherra Þýskalands, Horst Seehofer.

Á sama tíma vilja stjórnvöld herða refsingar í ákveðnum flokkum. Til að mynda að þeir sem verða uppvísir að því að hóta fólki lífláti eða nauðgunum á netinu geti verið dæmdir í þriggja ára fangelsi. 

Þýsk yf­ir­völd hafa und­an­far­in miss­eri lagt áherslu á að upp­ræta hópa hægriöfga­manna, en ein­stak­ling­ar með tengsl við slíkr­ar hreyf­ing­ar voru ábyrg­ir fyr­ir bæði morðinu á þýska stjórn­mála­mann­in­um Walter Lübcke síðasta sum­ar og árás á bæna­hús gyðinga í aust­urþýsku borg­inni Halle í októ­ber.

Að sögn yfirvalda hefur glæpum tengdum gyðingahatri fjölgað um 40% frá árinu 2013 og verða refsingar við slíku einnig þyngdar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert