Lögðu á ráðin um árásir á þýskar moskur

Einn þeirra handteknu sést hér leiddur í dómsal í Karlsruhe …
Einn þeirra handteknu sést hér leiddur í dómsal í Karlsruhe á laugardag. AFP

Tólf þýskir öfgamenn sem handteknir voru í aðgerðum lögreglu á föstudag höfðu lagt á ráðin um stórfelldar hryðjuverkaárásir á moskur í Þýskalandi, svipuðum voðaverkunum sem framin voru í Christchurch á Nýja-Sjálandi í fyrra.

Þetta staðfestu talsmenn þýskra yfirvalda á blaðamannafundi í dag, en þýskir fjölmiðlar hafa um helgina greint frá því að mennirnir hefðu haft fyrirætlanir um slíkar árásir. Björn Grüenewälder talsmaður þýska innanríkisráðuneytisins sagði sláandi að heyra af fyrirætlunum mannanna.

Steffen Seibert, talsmaður Angelu Merkel Þýskalandskanslara, sagði að það væri verkefni ríkisins og ríkisstjórnarinnar að tryggja að allir gætu iðkað sína trú í Þýskalandi, óháð því um hvaða trú væri að ræða.

Markmiðið að breyta samfélagsskipan Þýskalands

Samkvæmt fregnum þýskra miðla um helgina ætlaði hópurinn sér að ráðast til atlögu í mörgum moskum samtímis, á bænatíma, en strax eftir handtöku mannanna á föstudag greindu saksóknarar frá því í yfirlýsingu að hópurinn hefði verið stofnaður í september í fyrra og ætlað grípa til aðgerða sem myndu skapa glundroða í landinu, með það að markmiði að breyta þýskri samfélagsskipan.

Þýskir öfgamenn, sem handteknir voru á föstudag, höfðu lagt á …
Þýskir öfgamenn, sem handteknir voru á föstudag, höfðu lagt á ráðin um árásir gegn múslimum. Myndin er af mosku í Köln í Þýskalandi. AFP

Í yfirlýsingu saksóknara sagði einnig að talið væri að hópurinn hefði lagt á ráðin um árásir gegn stjórnmálamönnum, hælisleiteindum og múslimum.

Á meðal þeirra handteknu var lögreglumaður sem áður hafði verið leystur tímabundið frá störfum vegna gruns um að hann hefði tengsl við öfgahægrihópa, en þungvopnuð lögregla réðist á þrettán staði í sex sambandsríkjum Þýskalands á föstudagsmorgun og fundust vopn við húsleitir.

Yfirvöld komumst á snoðir um fyrirætlanir mannanna með forvirkum aðgerðum, en forsprakki hópsins hafði verið undir eftirliti lögreglu og fylgst hafði verið með fundum hans og spjallforritum um nokkur skeið. Forsprakkinn lýsti áformunum á fundi með félögum sínum á fundi í síðustu viku og í kjölfarið létu yfirvöld til skarar skríða gegn hópnum.

Einn mannanna sést hér leiddur fyrir dómara í Karlsruhe á …
Einn mannanna sést hér leiddur fyrir dómara í Karlsruhe á laugardag. AFP

Fjórir þeirra handteknu eru sagðir hafa ætlað sér að taka beinan þátt í árásum, samkvæmt fréttum AFP, en átta tóku þátt með óbeinum hætti, til dæmis fjárstyrkjum, og eru kallaðir „stuðningsmenn“ öfgahópsins.

Aukin áhersla á að fylgjast með öfgahópum

Þýsk yfirvöld hafa undanfarin misseri lagt áherslu á að uppræta hópa hægriöfgamanna, en einstaklingar með tengsl við slíkrar hreyfingar voru ábyrgir fyrir bæði morðinu á þýska stjórnmálamanninum Walter Lübcke síðasta sumar og árás á bænahús gyðinga í austurþýsku borginni Halle í október.

Horst Seehofer innanríkisráðherra tilkynnti í desember að bæta ætti við 600 stöðugildum hjá stofnunum ríkisins til þess að fylgjast sérstaklega með öfgafullum hópum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert